Þorbjörg Ingunn Ingólfsdóttir fæddist á Húsavík 15. júlí 1935. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 16. janúar 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Ingólfur Helgason trésmíðameistari, f. 18. apríl 1909 á Broddanesi í Strandasýslu, d. 9. jan. 1988, og Þuríður Halldórsdóttir húsmóðir, f. 13. feb. 1906 á Hraunkoti Aðaldal, d. 14. sept. 1984. Þau bjuggu á Húsavík.

Systkini Þorbjargar Ingunnar: Helga, f. 2. ágúst 1930, búsett í Kópavogi, maki Skúli Skúlason, f. 1934, látinn. Guðrún Herborg, f. 23. okt. 1932, látin, maki Hallmar Freyr Bjarnason, f. 21. nóv. 1931, látinn. Þau bjuggu á Húsavík. Halldór, f. 19. apríl 1934, maki Guðrún Þorgrímsdóttir, f. 12. júní 1935, látin. Þau bjuggu á Húsavík.

Þorbjörg var gift Guðmundi Steinssyni lækni, f. 27. júlí 1935, látinn 31. mars 2003. Þau bjuggu í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Steinn Erlendsson netagerðarmaður, f. 24. apr. 1895, d. 26. júlí 1982, og Sigríður Guðmundsdóttir kennari, f. 7. mars 1893, d. 26. október 1975.

Kjörsonur Þorbjargar og Guðmundar er Snorri, f. 20. okt. 1968, dóttir hans er Þorbjörg Erna, f. 10. des. 1988 í Reykjavík.

Útför Þorbjargar Ingunnar fór fram í kyrrþey.

Elskuleg móðursystir mín Þorbjörg Ingunn er látin. Um leið og sorgin sækir að vegna andláts yndislegrar frænku þá sækir einnig að mikið af hugljúfum minningum sem við fjölskyldan áttum um hana. Obba, eins og við fjölskyldan kölluðum hana, var mjög fjölskyldurækin, trygglynd og traust manneskja og voru tengsl hennar við ættmennin einstaklega náin og kærleiksrík.

Ég vil byrja á að minnast þess sérstaklega hve ánægjulegt það var þegar við systkini mín Ingólfur og Helga fengum að dvelja hjá þeim hjónum Obbu og Guðmundi á æskuárum okkar á sumrin. Þá var Guðmundur héraðslæknir á Þingeyri og á Hólmavík yfir nokkurra ára skeið og var Obba jafnan við aðstoðarstörf á sjúkraskýlinu. Þau sinntu starfi sínu af mikilli alúð og nærgætni og umsvifin voru mikil. Við urðum þeirra miklu gestrisni aðnjótandi og eignuðumst við systkinin ríkulegar minningar sem við búum að enn í dag.

Obba bar einstaklega miklar tilfinningar til ættmenna sinna á Húsavík og fórum við fjölskyldan yfirleitt á sumrin í heimsókn til foreldra Obbu, Þuríðar og Ingólfs á Höfðabrekku 17, og ættmenna. Þá hafði hún unun af náttúrunni þar, hrauninu, Botnsvatni, berjunum þar allt í kring, sundlauginni og gönguferðunum. Obba talaði alltaf með tilhlökkun um að fara heim, norður til Húsavíkur, og eftir að foreldrar hennar féllu frá sótti hún áfram norður til ættmenna sinna þar. Obbu varð tíðrætt um þessa ljúfu og kærleiksríku tíma þar sem brimaldan brotnar í fjöruborðinu við bæinn og í fjarska gnæfa Kinnarfjöllin í allri sinni dýrð.

Obba og Guðmundur bjuggu í Fossvoginum og var Guðmundur starfandi á sjúkrahúsinu en þau hjónin voru jafnframt einstaklega tilbúin til að aðstoða fjölskylduna ef einhver veikindi sóttu að. Þau bjuggu í nágrenni við systur Obbu og mág, Helgu og Skúla í Birkigrund 31, og var mikið og kærleiksríkt samband þar á milli alla tíð. Á sumrin var oft hist þar og var þá grillað á pallinum og var unun að spjalla við Obbu og Guðmund og eiga samverustund með þeim. Á veturna hittumst við öll reglulega en fyrir jólin var það hefð að skera út laufabrauð að hætti Norðlendinga og var þá fjölmennt og naut Obba þessara stunda mjög.

Dóttir mín Þuríður Helga minnist frænku sinnar með þeim orðum að alltaf hafi verið svo gott að koma til Obbu og Guðmundar. Það var eins og að vera heima hjá sér en þar var alltaf svo einstaklega rólegt og notalegt andrúmsloft. Garðurinn þeirra var svo fallegur með hvítum blómum og rósum og sátum við oft þar úti og nutum yndislegra stunda. Obba frænka var yfirveguð með ljúfa nærveru, henni þótti gaman að segja sögur frá því í gamla daga. Þá voru gamlárskvöldin hjá þeim Obbu og Guðmundi alltaf sérlega skemmtileg.

Obba átti marga góða vini og hélt miklu sambandi við vinkonur sínar í Reykjavík en þær hittust reglulega áratugum saman og talaði Obba oft við mig um hvað henni þætti vænt um þá tíma og minntist þeirra með þakklæti.

Elsku Obba frænka, við kveðjum þig með söknuði í hjarta og innilegu þakklæti fyrir samfylgdina. Lífinu á þessari jörð er lokið og annað og meira tekið við. Missir okkar er mikill en minningarnar lifa. Jesús kennir okkur að við lifum þótt við deyjum og við lifum í almáttugum Guði sem gefur elsku og eilíft líf. Mér er ljúft að minnast orða Jesú á krossinum í Lúkasarguðspjalli 23.43: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“

Sóley Herborg Skúladóttir, systkini

og fjölskyldur.
Meira á: https://www.mbl.is/andlat/