Skýr skilaboð um Úkraínu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og aðrir leiðtogar Norðurlandanna funduðu í Helsinki í gær með Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu. Á fundinum komu fram skýr skilaboð til Selenskís um áframhaldandi og óbilandi stuðning Norðurlandannna við Úkraínu í þeirri skelfilegu baráttu sem landið á í við innrásarher Rússlands. Um leið berast skilaboðin til Moskvu. Vonandi verða slík skilaboð til þess að Rússar átti sig á að stríðið verði þeim of dýrkeypt og að þeir eigi engan annan raunhæfan kost en að hætta stríðsrekstrinum.

Á fundinum kom meðal annars fram sá skilningur leiðtoga Norðurlandanna að Úkraínumenn væru ekki aðeins að berjast fyrir sjálfa sig heldur einnig fyrir aðra. Gríðarlega þýðingarmikið er að Rússlandi takist ekki ætlunarverk sitt því að aðrir nágrannar Rússlands hafa enga ástæðu til að ætla að þar verði látið staðar numið ef árangur næst í Úkraínu. Um leið er mikilvægt að önnur ríki sem sýnt hafa nágrönnum yfirgang sjái að innrás skilar ekki árangri.

Ísland getur eðli máls samkvæmt ekki ráðið úrslitum í stríðsátökum, en landið getur engu að síður sýnt stuðning í orði og verki. Þann stuðning og samstöðu Norðurlandanna í varnarmálum ítrekaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í Helsinki í gær og þá afstöðu styður þjóðin heils hugar.