Ávísunum lyfja hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum og umfram fjölgun landsmanna. Fram kemur á nýju yfirliti sem Lyfjastofnun hefur birt að heildarfjöldi lyfjaávísana jókst að meðaltali um þrjú prósent á milli áranna 2018 til 2020 og jókst…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ávísunum lyfja hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum og umfram fjölgun landsmanna. Fram kemur á nýju yfirliti sem Lyfjastofnun hefur birt að heildarfjöldi lyfjaávísana jókst að meðaltali um þrjú prósent á milli áranna 2018 til 2020 og jókst svo til muna frá árinu 2020 til loka seinasta árs eða að meðaltali um 6,6%.

Á fjögurra ára tímabili frá 2018 til 2022 er uppsöfnuð fjölgun lyfjaávísana 20,8% samkvæmt tölunum sem Lyfjastofnun birtir. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um átta prósent í heild.

Fólki í aldurshópnum 65 ára og eldri fjölgaði hlutfallslega öllu meira eða um 15% á þessu tímabili frá 2018 til ársloka 2022.

Upplýsingarnar um lyfjaávísanir koma fram á yfirliti Lyfjastofnunar yfir starfsemi apóteka á seinasta ári og þróun lyfjaávísana á undanförnum árum. Á árinu 2020 fjölgaði lyfjaávísunum um 3,4% frá árinu á undan. Á árinu 2021 fjölgaði þeim um 6,8% og í fyrra um rúm 6,4%.

76 apótek á landinu

Apótekum á landinu fjölgaði um eitt í fyrra og um seinustu áramót voru alls 76 starfandi apótek hér á landi. Auk apótekanna voru 29 lyfjaútibú í rekstri á landinu. Tvö ný apótek hófu rekstur í fyrra en tvö hættu rekstri. Lyf og heilsa hf. rekur flest apótek á landinu eða samtals 26 og Lyfja hf. rekur 23. Lyfsalinn ehf. kemur svo í þriðja sæti með sex apótek.

Fjöldi landsmanna á hvert apótek var að jafnaði 4.951 einstaklingur í fyrra og hefur fjöldi landsmanna á hvert apótek aukist um 2,3% frá árinu 2018.

„Langflest apótek er að finna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 68% apóteka eru staðsett, sem er í samræmi við mannfjölda. Í Reykjanesbæ eru fimm apótek, fimm á Akureyri, þrjú á Selfossi, tvö á Austurlandi (Egilsstöðum og Neskaupstað) og eitt á Ísafirði,“ segir í umfjöllun Lyfjastofnunar. Þá eru lyfjaútibú rekin á allri landsbyggðinni og fjórar lyfsölur í tengslum við rekstur heilsugæslustöðva.