Frumkvöðlar Frá vinstri: Þóra Hrólfsdóttir, kennari hópsins, Kolbrún Jónsdóttir, Sonja Oliversdóttir, Þórunn Jenný Guðmundsdóttir, Kristinn Örn Gunnarsson, Salka Sigmarsdóttir og Hrafnhildur Gerða Guðmundsdóttir.
Frumkvöðlar Frá vinstri: Þóra Hrólfsdóttir, kennari hópsins, Kolbrún Jónsdóttir, Sonja Oliversdóttir, Þórunn Jenný Guðmundsdóttir, Kristinn Örn Gunnarsson, Salka Sigmarsdóttir og Hrafnhildur Gerða Guðmundsdóttir.
Hópur frumkvöðla í Verslunarskóla Íslands hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu og fengið verðlaun og viðurkenningar innan lands sem utan fyrir borðspilið Aur & áhættu, sem er gert til að auka fjármálalæsi

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hópur frumkvöðla í Verslunarskóla Íslands hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu og fengið verðlaun og viðurkenningar innan lands sem utan fyrir borðspilið Aur & áhættu, sem er gert til að auka fjármálalæsi. „Hugmynd að spilinu fæddist í frumkvöðlaáfanga í janúar og stefnan er að koma því í sem flesta grunnskóla landsins,“ segir Salka Sigmarsdóttir, talsmaður hópsins.

Auk Sölku eru í hópnum Kolbrún Jónsdóttir, Sonja Oliversdóttir, Þórunn Jenný Guðmundsdóttir, Kristinn Örn Gunnarsson og Hrafnhildur Gerða Guðmundsdóttir, en þau útskrifast öll í vor. Salka segir að þegar þau hafi rætt um kennslu í fjármálalæsi hafi þau átt það sameiginlegt að hafa enga slíka kennslu fengið í grunnskóla en verið þakklát fyrir hvað þau hafi fengið góða fjármálakennslu á viðskiptabraut VÍ. „Okkur fannst undarlegt að ekkert okkar hefði fengið grunn í fjármálakennslu á yngri stigum, ekki síst vegna þess að fjármálalæsi snertir alla í daglegu lífi. Þannig varð borðspilið til en það veitir þátttakendum innsýn í hlutabréfamarkaðinn og kennir þeim að beita grunnhugtökum í fjármálum.“

Nemendurnir hönnuðu spilið með ungmenni á efri stigum grunnskóla í huga en leggja áherslu á að allir geti haft gaman af því. Fræðslan skipti miklu máli og hún sé sett upp á skemmtilegan hátt til að kveikja áhuga á fjármálum.

Heiðursverðlaun í Riga

Krakkarnir kynntu fyrirtæki sitt og samnefnt spil á sérstakri frumkvöðlahátíð framhaldsskólanema í Riga í Lettlandi í apríl (International Student Company Festival), en þar kynntu 46 fyrirtæki frá 12 löndum viðskiptahugmyndir sínar. „Við fengum heiðursverðlaun og vorum tilnefnd til aðalverðlaunanna,“ upplýsir Salka. Þau hafi styrkt tengslanetið í Riga, margir hafi sýnt áhuga á spilinu og þau hafi öðlast dýrmæta reynslu. Óskað hafi verið eftir því á ensku og hafi þau hug á að bregðast við þeirri beiðni. „Það er langtímaplan.“

Í liðinni viku var uppskeruhátíð Ungra frumkvöðla í frumkvöðlaáföngum íslenskra framhaldsskóla haldin í Arion banka. 130 fyrirtæki sendu inn viðskiptahugmyndir og 30 þeirra voru valin í úrslit, þar sem Aur & áhætta varð í 3. sæti í keppni um Fyrirtæki ársins og fékk verðlaun fyrir áhugaverðustu fjármálalausnina.

Salka segir hópinn ánægðan með viðtökurnar og þau ætli að halda áfram að kynna hugmyndina heima og erlendis. „Með vörunni okkar brjótum við upp hefðbundna kennslu og leyfum ungu fólki og byrjendum á hvaða aldri sem er að auka fjármálalæsi sitt með skemmtilegum hætti.“