Hestaíþróttir eru vinsælar.
Hestaíþróttir eru vinsælar.
Stjórn Landssambands hestamannafélaga (LH) skorar á alla þá sem koma að undirbúningi og hönnun Þjóðarhallar í Laugardal að þar sé gert ráð fyrir hestaíþróttinni rétt eins og öðrum stórum íþróttagreinum

Stjórn Landssambands hestamannafélaga (LH) skorar á alla þá sem koma að undirbúningi og hönnun Þjóðarhallar í Laugardal að þar sé gert ráð fyrir hestaíþróttinni rétt eins og öðrum stórum íþróttagreinum. Bendir LH á að það sé fjórða fjölmennasta sérsambandið innan ÍSÍ, með yfir 12 þúsund iðkendur. Segir stjórn LS að hestaíþróttin sé ein fárra íþróttagreina sem ekki hafi aðgang að löglegum keppnisvelli innanhúss. Ljóst sé að það standi íþróttinni verulega fyrir þrifum.

Í tillögum framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll kemur fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg. „Með það í huga frá upphafi hönnunar ætti að vera hægt að koma fyrir keppnisgólfi fyrir hestaíþróttir svo keppa megi á löglegum keppnisvelli innanhúss. Mörg dæmi eru um slíkt erlendis og má nefna Icehorse festival í Danmörku þar sem þúsundir áhorfenda fylgjast ár hvert með stærsta innanhússmóti heims í Íslandshestaíþróttum,“ segir m.a. í ályktun stjórnar LH.