50 ára Ágústa ólst upp í Reykholti í Borgarfirði fram á unglingsár en flutti þá í Árbæinn og býr þar. Hún er með BA í sagnfræði og MA í safnafræði, hvort tveggja frá HÍ. Hún er framkvæmdastjóri kjarnasviðs safneignar hjá Þjóðminjasafni Íslands

50 ára Ágústa ólst upp í Reykholti í Borgarfirði fram á unglingsár en flutti þá í Árbæinn og býr þar. Hún er með BA í sagnfræði og MA í safnafræði, hvort tveggja frá HÍ. Hún er framkvæmdastjóri kjarnasviðs safneignar hjá Þjóðminjasafni Íslands.

„Þjóðminjasafninu er ekkert óviðkomandi. Við sinnum varðveislu menningarminja í stóru samhengi, allt frá húsasafni safnsins yfir í óáþreifanlegan menningararf í þjóðháttasafni með viðkomu í ljósmyndun, fornleifum og munum. Þetta er á mínu sviði og ég vinn hérna með stórum hópi af góðu fólki að varðveislu menningararfsins alla daga. Stór hluti af vinnunni er að skrá og raða rétt í hillurnar og huga að því að allur aðbúnaður sé eins og best verður á kosið.“

Ágústa er mikil safnamanneskja. „Ég byrjaði að vinna í Dillonshúsi í Árbæjarsafni sumarið 1993 og hef hvergi unnið nema á söfnum eftir það. Mér finnst þetta skemmtilegur snúningur á veruleikann, við erum aldrei að kljást við hann sjálfan heldur afurðir lífs annarra. Mamma mín var hjúkrunarfræðingur og var mikið að kljást við dagleg vandamál fólks í sínu starfi og ég myndi segja að ég hafi valið mér starf alveg á hinum endanum.“

Áhugamál Ágústu er útivist. „Ef ég er ekki í vinnunni eða á safni þá er ég einhvers staðar úti í náttúrunni. Mér finnst allt skemmtilegt sem er hægt að gera úti, hvort sem það eru fjallgöngur, skíði, kajak eða garðyrkja. Ég er oft á ferðinni um nágrenni Reykjavíkur og nýt þess að búa í Árbænum þar sem er stutt í allar leiðir.“

Fjölskylda Eiginmaður Ágústu er Óli Jón Jónsson, f. 1969, ritstjóri hjá Háskóla Íslands. Börn þeirra eru Ásdís Thorlacius Óladóttir, f. 1993, Tómas Ólason, f. 2002, og Jón Kristófer Ólason, f. 2008. Barnabörnin eru Sunna, f. 2020, og Ísleifur, f. 2022, börn Ásdísar og Ingvars Eysteinssonar. Foreldrar Ágústu voru Margrét Gunnarsdóttir, f. 1950, d. 2013, hjúkrunarfræðingur, og Kristófer Már Kristinsson, f. 1948, d. 2021, leiðsögumaður.