Fuglalíf Mun færri álftir eru í Lóni en vant er. Bændur furða sig á því hvers vegna færri gæsir sjáist nú í túnum þeirra en í venjulegu árferði.
Fuglalíf Mun færri álftir eru í Lóni en vant er. Bændur furða sig á því hvers vegna færri gæsir sjáist nú í túnum þeirra en í venjulegu árferði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hörður Vilberg hordur@mbl.is Vart hefur orðið við að færri gæsir hafi lagt leið sína til landsins í vor en í venjulegu árferði. Brynjúlfur Brynjólfsson, starfsmaður Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, segir að á því svæði sem félagið fylgist með, frá Tvískerjum í Öræfum vestri að Hvalnesi í Lóni í austri, megi greina þetta glöggt.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Vart hefur orðið við að færri gæsir hafi lagt leið sína til landsins í vor en í venjulegu árferði. Brynjúlfur Brynjólfsson, starfsmaður Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands, segir að á því svæði sem félagið fylgist með, frá Tvískerjum í Öræfum vestri að Hvalnesi í Lóni í austri, megi greina þetta glöggt.

Hann segir að grágæs hafi farið fækkandi á undanförnum tuttugu árum, veiðimenn og bændur séu sammála um það. Brynjúlfur segir einnig að lítið sjáist af heiðagæs sem sé stærsti gæsastofninn á Íslandi. Yfirleitt er mjög mikið af henni á vorin á suðausturhorni landsins. „Það er lítið af henni miðað við hvað hefur verið.“ Hann segir að það sé engin sérstök skýring á því. „Hérna vantar um það bil helming eða meira miðað við undanfarin ár.“

Bændur á stórum jörðum hafa furðað sig á því af hverju gæsirnar láti ekki sjá sig þar sem allt að tuttugu þúsund gæsir hafa hreiðrað um sig en eru nú aðeins um þrjú til fjögur þúsund. Bynjúlfur telur að stofninn geti verið um einn þriðji af því sem venjulegt er án þess að geta fullyrt hvernig staðan er annars staðar á landinu. Á stökum túnum sé nú að finna um 1.200 heiðagæsir þar sem þær séu vanalega allt að 5.000.

Brynjúlfur fylgist grannt með ferðum helsingja. Íslenski stofninn hefur verið að stækka um 12-18% á ári en á síðasta ári hægði mikið á viðkomu hans. Það er allt að helmingi minna en vanalegt er. Fuglaflensa hefur leikið helsingja grátt og mikið af fugli hefur drepist eftir vetrardöl á skoskum og írskum eyjum. Brynjúlfur segir að skúmastofninn sé einnig hruninn og gæsaveiðimenn hafi haldið að sér höndum síðastliðið haust vegna flensunnar.

Þá er álftin ekki undanskilin þegar kemur að niðursveiflu í náttúrunni en Brynjúlfur kannar fjölda þeirra í Lóni í nágrenni Hafnar í Hornafirði allt árið. „Þar hafa mest verið um sjö til átta þúsund fuglar í apríl undanfarin ár þegar mest hefur verið en núna taldi ég um fjögur þúsund og sex hundruð.“ Hann segir að það vanti um 60% af stofninum miðað við það þegar hann hefur verið sem stærstur á liðnum árum. „Álftin er ekki úti á túnum hjá okkur. Þetta er óeðlilega lítið.“

Höf.: Hörður Vilberg