Kristján Björnsson
Kristján Björnsson
„Ég tek þessu nú ekki persónulega,“ segir Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, um að tveir ungir prestar, þau Arna Grétarsdóttir og Dagur Fannar Magnússon, hafi fengið fleiri tilnefningar en hann til embættis vígslubiskups þó litlu muni

„Ég tek þessu nú ekki persónulega,“ segir Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, um að tveir ungir prestar, þau Arna Grétarsdóttir og Dagur Fannar Magnússon, hafi fengið fleiri tilnefningar en hann til embættis vígslubiskups þó litlu muni. „Ég hef hlotið tilnefningu og er búinn að svara kjörstjórninni að ég ætli að taka þátt í þessu kjöri.“

Hann segir þó að óneitanlega sé þetta sérstök tilfinning því þetta sé í fyrsta skipti sem sitjandi biskup fer í endurkjör. „Það kerfi hefur aldrei verið á Íslandi, en starfsreglunum var breytt á kirkjuþingi í fyrra. Menn eru að prófa hvernig þetta reynist. Eina sem ég les út úr þessu núna er að það er frekar lítil þátttaka presta og djákna núna,“ segir Kristján og segir það hugsanlega vera vegna þess að engin hefð sé fyrir þessu fyrirkomulagi. „Skipunartími biskupa hefur alltaf verið framlengdur hingað til af forseta Íslands eftir þennan fimm ára formlega skipunartíma.“

Kristján bendir á að nýtt fyrirkomulag sé einsdæmi á Norðurlöndum. „Systurkirkjur okkar á Norðurlöndum hafa ekki þetta fyrirkomulag. Kirkjuþing vildi prófa þetta, svo við erum fyrst til að hafa endurkjör sitjandi biskupa á Norðurlöndum. Það er alltaf svolítið gaman að skrifa söguna,“ segir hann hress í bragði.

„Það er líka hollt fyrir mig eftir mitt fyrsta tímabil að þurfa að sækja aftur umboðið til presta og djákna og allra sem eru í sóknarnefndum í umdæmi Skálholts,“ segir hann og segir að á annað þúsund kjörmenn séu í umdæminu og hann ætli að nota næstu daga til að eiga þetta samtal fram að kosningu. „Þetta fyrirkomulag getur líka verið gott, ef t.d. söfnuðirnir eða prestarnir hafa einhverjar ávirðingar á biskup eða líkar ekki þjónusta hans. Þá hafa þeir þennan glugga til að taka á því,“ og bætir við að allt geti þetta verið til bóta. doraosk@mbl.is