Bráðavaktin Bolli Már uppistandari var gestur Evu Ruzu og Hjálmars Arnar í Bráðavaktinni á K100 á laugardag.
Bráðavaktin Bolli Már uppistandari var gestur Evu Ruzu og Hjálmars Arnar í Bráðavaktinni á K100 á laugardag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppistandarinn Bolli Már Bjarnason lék á als oddi í viðtali í helgarþættinum Bráðavaktinni með Evu Ruzu og Hjálmari Erni á K100 um liðna helgi. Hann er nýstiginn inn á uppistandssviðið og hefur slegið í gegn en uppselt er nánast á allar sýningar hans í Tjarnarbíói

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Uppistandarinn Bolli Már Bjarnason lék á als oddi í viðtali í helgarþættinum Bráðavaktinni með Evu Ruzu og Hjálmari Erni á K100 um liðna helgi. Hann er nýstiginn inn á uppistandssviðið og hefur slegið í gegn en uppselt er nánast á allar sýningar hans í Tjarnarbíói. Hann viðurkennir aðspurður að það hafi komið mörgum á óvart að hann hafi ákveðið að taka þetta skref sem segir þó að hafi verið nauðsynlegt fyrir hann sjálfan.

„Ég hef haft þennan draum lengi. En var ekkert að tala mikið um þetta. Ég ákvað að undirbúa þetta vel og svo bara „blasta“ þessu. Þetta kom þeim sem eru í innsta hring ekkert á óvart. En það eru margir sem koma að mér og segja: Já, ert þú með uppistand. Af hverju ertu að standa í þessu? Þetta kom mörgum á óvart en þetta er svona hægt og rólega að hætta að koma fólki á óvart,“ sagði Bolli.

„Fyrir sjálfan mig“

„Ég gerði þetta eiginlega af því að ég þurfti bara að gera þetta fyrir sjálfan mig,“ sagði hann.

Hann viðurkenndi þó að fyrstu þrjár mínúturnar í fyrsta uppistandinu hafi verið krefjandi.

„Á frumsýningunni. Það hefði ekkert getað undirbúið mig undir fyrstu tvær, þrjár mínúturnar. Ég steig fram. Bara, vúhú! Voða gaman. Svo bara helltist yfir mig: Það ert bara þú og þessi hljóðnemi næsta klukkutímann. Þú þarft hvorki að syngja né dansa. Gjörðu svo vel að gera eitthvað sniðugt hérna,“ lýsti Bolli.

Seldust upp

Fyrstu þrjár mínúturnar eru í einhverri móðu og svo hægt og rólega komst ég inn í þetta. Núna er þriðja sýning,“ sagði hann en uppselt er á þá sýningu eins og fyrri tvær. Enn eru þó örfáir miðar fáanlegir á næstu þrjár, í maímánuði, en þá má nálgast á Tix.is.

Spurður út í það hvaðan hann fái innblástur fyrir uppistandið sagðist hann sækja mest í einkalífið.

„Ég er mjög persónulegur. Ég tala um fæðingu barnsins míns, tilfinningar mínar í orlofi. Ég fer yfir hvernig ég er í umferðinni, hvernig ég er á fótboltaleikjum. Svo tala ég um typpamyndir til dæmis,“ sagði Bolli kíminn.

Aldrei skilið typpamyndir

„Ég hef aldrei skilið þetta alveg. Ég er búin að vera það lengi í sambandi að ég missti til dæmis af Tinder og því öllu. Þannig að ég hef ekki fengið „match“ og sent strax eina góða typpamynd. En mér finnst þetta svo magnað, af því að ég er búin að vinna svolitla rannsóknarvinnu og tala við konur hér og þar og mín niðurstaða er sú að konum finnst þetta ekki sexí. En menn eru samt að senda þetta,“ sagði Bolli.

„Þannig að ég komst að þeirri niðurstöðu að það er pottþétt einhver ein kona þarna úti sem finnst þetta sexí. Og hún gerir það að verkum að þetta heldur áfram,“ sagði hann.

Þegar talið barst að nafni Bolla sagðist hann vissulega hafa lent í því, margsinnis, að gert hafi verið í honum símaat.

„Ég held að ég muni einhvern tímann koma fram í Vikunni eða í Mannlífi eða eitthvað, með raunasvip og segja bara: Ég er fórnarlamb símaeineltis. Án djóks. Þetta er þrisvar í viku, að minnsta kosti,“ sagði Bolli.

„Ef það er fríí skólum er þetta extra slæmt. Krakkarnir eru bara heima og gera ekki neitt. Þá er hringt,“ sagði hann kíminn. Eva Ruza viðurkenndi þá að hún hefði verið ein af þeim börnum sem gerðu reglulega símaat í fólki með nöfn á borð við Bolla.

„Ég og vinkona mín vorum alltaf í símaskránni, þegar símaskráin var, að leita að nafninu Bolli,“ sagði Eva og lýsti því hvernig þær hefðu spurt eftir „Hreinum Bolla“ í hverju símtali.

„Ef það liggur rosa vel á mér tek ég slaginn og spjalla aðeins og svona. En ef ekki – ef ég heyri að þetta er barn í símanum þá skelli ég á,“ sagði Bolli og sagði að líklega þyrfti hann að fjarlægja nafnið sitt af já.is fljótlega.