Herrakvöld Alls söfnuðust níu milljónir hjá Lionsklúbbnum Nirði.
Herrakvöld Alls söfnuðust níu milljónir hjá Lionsklúbbnum Nirði.
Mikið var um dýrðir á herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar sem haldið var á dögunum. Sem endranær var kvöldið haldið til fjáröflunar fyrir góð málefni en söfnunin hefur aldrei gengið jafn vel og í ár. Að þessu sinni var safnað fyrir Grensásdeild og…

Mikið var um dýrðir á herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar sem haldið var á dögunum. Sem endranær var kvöldið haldið til fjáröflunar fyrir góð málefni en söfnunin hefur aldrei gengið jafn vel og í ár. Að þessu sinni var safnað fyrir Grensásdeild og Parkinson- og Alzheimersamtökin og söfnuðust samtals rétt tæpar níu milljónir króna.

Daníel Þórarinsson, formaður herrakvöldsnefndar Lionsklúbbsins Njarðar, segir að hefðin og góð skipulagning skili árangri sem þessum. „Félagar klúbbsins gera miklar kröfur til sjálfra sín og allra þjónustuaðila og skemmtikrafta sem koma að herrakvöldunum. Herrakvöld Njarðar er glæsilegasta herrakvöld ársins að margra mati og hefur svo verið um langt skeið. Kvöldið er byggt upp á glæsileika, góðri skemmtun og góðum mat. Málefnin sem kvöldið er helgað eiga sér jafnframt stuðning í hjarta margra. Að þessu sinni var listaverkauppboð kvöldsins tileinkað Grensásdeild sem veitt hefur þúsundum endurhæfingu og á 50 ára starfsafmæli á þessu vori. Uppboðið skilaði deildinni um 5,2 milljónum króna. Ágóði af happdrætti kvöldsins rann að þessu sinni til Alzheimer- og Parkinsonsamtakanna. Báðir þessir sjúkdómar hafa verið mikið í umræðunni enda hafa mjög stórir árgangar Íslendinga verið að komast á efri ár. Happdrættið gaf hagnað upp á samtals 3,7 milljónir króna eða 1.850.000 krónur fyrir hvor samtök,“ segir formaðurinn.