Ísak Andri Sigurgeirsson, 19 ára gamall kantmaður Stjörnunnar, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni. Ísak fékk samtals sex M í fjórum leikjum Stjörnunnar, þar af þrjú M, hæstu mögulega…

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ísak Andri Sigurgeirsson, 19 ára gamall kantmaður Stjörnunnar, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.

Ísak fékk samtals sex M í fjórum leikjum Stjörnunnar, þar af þrjú M, hæstu mögulega einkunn, fyrir frammistöðu sína gegn HK þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp þrjú.

Þá fékk hann tvö M fyrir leikinn gegn Val þar sem hann skoraði tvö mörk með átta mínúna millibili á lokakafla leiksins, annað þeirra með glæsilegu skoti eftir magnaðan sprett.

Örvar og Ísak jafnir

Örvar Eggertsson, kantmaður HK, var jafn Ísaki en þeir fengu báðir sex M fyrir leiki sína í apríl, tveimur fleiri en næstu menn á eftir þeim í deildinni. Ísak og Örvar voru báðir tvisvar valdir í úrvalslið umferðar í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar og því var ekki einfalt að gera upp á milli þeirra.

Þrír leikmenn hafa fengið eitt eða fleiri M í öllum fjórum leikjum sínum til þessa í deildinni. Það eru Örvar Eggertsson úr HK, Gísli Eyjólfsson úr Breiðabliki og Fred Saraiva úr Fram.

Fjórir leikmenn voru ­valdir tvisvar í lið umferðarinnar í apríl. Það eru þeir Ísak Andri og Örvar, sem og þeir Oliver Ekroth, varnarmaður Víkings, og Frederik Schram, markvörður Vals.

Örvar var valinn besti leikmaður 1. umferðar af Morgunblaðinu, Kristinn Jónsson úr KR var valinn í annarri umferð, Ísak Andri í þriðju umferð og Stefán Ingi Sigurðarson úr Breiðabliki í fjórðu umferð.

Víkingar með flest M

Víkingar fengu flest M samtals í aprílmánuði, 26 talsins. Valur fékk 20 M, HK 20, Breiðablik 18, Stjarnan 17, ÍBV 17, Fram 17, FH 17, Fylkir 17, KA 16, Keflavík 11 og KR 11.

Víkingar eiga líka flesta leikmenn sem fengu M í apríl, 13 talsins. Valsmenn eiga 12 og Fylkir 12. Keflvíkingar áttu fæsta leikmenn en sjö úr þeirra röðum fengu M í apríl.

Hér fyrir ofan má sjá úrvalslið aprílmánaðar, ellefu leikmenn í byrjunarliði og ellefu leikmenn á varamannabekknum, en þetta eru þeir 22 leikmenn sem fengu þrjú M eða fleiri í umferðunum fjórum í apríl.

Meinleg villa var í blaðinu í gær þegar úrvalslið 4. umferðar var birt. Kjartan Henry Finnbogason, sem er í stöðu framherja í liðinu, er að sjálfsögðu í FH en ekki í KR og hann skoraði einmitt tvö mörk fyrir FH í sigri á sínum fyrri félögum í KR.

Höf.: Víðir Sigurðsson