Óskarinn Michelle Yeoh og Brendan Fraser voru verðlaunuð fyrir leik sinn.
Óskarinn Michelle Yeoh og Brendan Fraser voru verðlaunuð fyrir leik sinn. — AFP/Angela Weiss
Bandaríska kvikmyndaakademían hefur samþykkt að breyta reglum sínum um hvað sé leyfilegt í herferðum fyrir þá sem eru tilnefndir til Óskarsverðlauna. Samkvæmt frétt The Guardian er þetta viðbragð við ábendingum í tengslum við síðustu…

Bandaríska kvikmyndaakademían hefur samþykkt að breyta reglum sínum um hvað sé leyfilegt í herferðum fyrir þá sem eru tilnefndir til Óskarsverðlauna. Samkvæmt frétt The Guardian er þetta viðbragð við ábendingum í tengslum við síðustu verðlaunaveitingu þar sem það kom mörgum verulega á óvart að Andrea Riseborough var tilnefnd fyrir leik, en frægir leikarar hvöttu aðra meðlimi akademíunnar óspart til að kjósa hana.

Nýju reglurnar fela m.a. í sér að meðlimum akademíunnar er óheimilt að nýta samfélagsmiðla til að hvetja fólk til að kjósa eða kjósa ekki tilteknar myndir eða frammistöðu. Meðlimum er jafnframt óheimilt að ræða við fjölmiðla, hvort heldur er undir nafni eða nafnlaust, um hvað þeir hafi kosið. Nýju reglunum er ætlað að tryggja sanngirni og gagnsæi í vali á verðlaunahöfum.