Drónabann Skilti við Zaryadye-lystigarðinn í miðborg Moskvu rétt hjá Kreml þar sem segir að öll flugumferð dróna sé bönnuð á svæðinu.
Drónabann Skilti við Zaryadye-lystigarðinn í miðborg Moskvu rétt hjá Kreml þar sem segir að öll flugumferð dróna sé bönnuð á svæðinu. — AFP/Natalia Kolesnikova
Rússnesk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að þau hefðu skotið niður tvo dróna aðfaranótt miðvikudags, og héldu Rússar því fram að drónarnir hefðu stefnt beint á bústað Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta innan veggja Kremlarhallar

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Rússnesk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að þau hefðu skotið niður tvo dróna aðfaranótt miðvikudags, og héldu Rússar því fram að drónarnir hefðu stefnt beint á bústað Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta innan veggja Kremlarhallar.

Sögðu Rússar að árásin hefði verið „skipulagt hryðjuverk“ af hálfu Úkraínumanna og tilraun til að ráða forseta Rússlands af dögum. Þá kom fram í tilkynningu Rússa að enginn hefði særst þegar drónarnir voru skotnir niður, en Rússar sendu einnig myndskeið af þeirri stundu.

Borgarstjóri Moskvu tilkynnti í gær að allt drónaflug yfir borginni væri bannað nema með sérstöku leyfi yfirvalda. Þrátt fyrir meinta árás á forsetann mun það ekki hafa áhrif á þátttöku Pútíns í árlegri 9. maí-sigurgöngu á Rauða torginu. Hersýningin er haldin í tilefni sigurs bandamanna á Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni og kærkominn vettvangur fyrir Pútín að styrkja ímynd sína heima fyrir.

Úkraínumenn neita allri sök

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þvertók fyrir að Úkraínumenn bæru ábyrgð á árásinni á blaðamannafundi sínum með leiðtogum Norðurlandanna í gær og Mikhaíló Podoljak, ráðgjafi Selenskís, ítrekaði það. „Úkraína hefur ekkert með drónaárásir á Kreml að gera,“ sagði Podoljak, og bætti við að Úkraínumenn hefðu nóg að gera við að verja land sitt fyrir innrás Rússa. Gaf Podoljak í skyn að líklegra væri að árásin væri sviðsett af Rússum sjálfum og væri alþekkt bragð þeirra til að réttlæta stóra árás á Úkraínu.

Það varð enda raunin. Í gær flugu rússneskar herþotur yfir suðurhluta Kerson-héraðs í Úkraínu og vörpuðu sprengjum á borgina Kerson og nærliggjandi svæði. Úkraínumenn sögðu að 18 hefðu fallið hið minnsta og 46 særst í árásinni og að árásir á víglínuna héldu áfram.

Yfirvöld í Kerson-borg tilkynntu í gær um útgöngubann sem hæfist á morgun, föstudag, og stæði til mánudags. Útgöngubannið var sett á vegna ótta um yfirvofandi árásir vegna aukinnar loftumferðar Rússa á svæðinu. Sagt var að tólf hinna látnu hefðu fallið í borginni Kerson og þar væru 22 almennir borgarar særðir. Meðan á útgöngubanni stendur verður öll umferð til og frá borginni stöðvuð. Íbúar borgarinnar voru hvattir til að sækja sér vistir og lyf áður en útgöngubannið hæfist.