Best „Schola Cantorum hefur fyrir löngu skipað sér á stall sem einn besti kammerkór landsins […] og músíkalskur flutningur kórsins undir stjórn Harðar […] á nýja geisladisknum er eftirminnilegur,“ segir um Meditatio II.
Best „Schola Cantorum hefur fyrir löngu skipað sér á stall sem einn besti kammerkór landsins […] og músíkalskur flutningur kórsins undir stjórn Harðar […] á nýja geisladisknum er eftirminnilegur,“ segir um Meditatio II.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Birta vonar og huggunar Meditatio II. Music for mixed choir ★★★★★ Verk eftir Daniel Elder, Auði Guðjohnsen, Galinu Grigorjeva, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Hauk Tómasson, Ola Gjeilo, Þóru Marteinsdóttur, Paul Mealor, Björn Thorarensen, Sigurð Sævarsson, Pawel Łukaszewski, Pärt Uusberg og Eric Whitacre

Birta vonar og huggunar

Meditatio II. Music for mixed choir

★★★★★

Verk eftir Daniel Elder, Auði Guðjohnsen, Galinu Grigorjeva, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Hauk Tómasson, Ola Gjeilo, Þóru Marteinsdóttur, Paul Mealor, Björn Thorarensen, Sigurð Sævarsson, Pawel Łukaszewski, Pärt Uusberg og Eric Whitacre. Útsetningar eftir Hafstein Þórólfsson og John Hearne. Schola Cantorum Reykjavicensis. Hörður Áskelsson (stjórnandi). BIS 2618, árið 2023. Heildartími: 61:20 mín.

Kammerkórinn Schola Cantorum var stofnaður árið 1996 og hefur því starfað í rúman aldarfjórðung. Kórinn hefur sent frá sér fjölda geisladiska, þar á meðal árið 2016 þegar diskurinn Meditatio kom út (BIS 2200). Þar söng kórinn verk sem hann hefur sungið á tónleikum á allraheilagramessu á starfstíma sínum, það er að segja tónlist sem túlkar bæði hugsanir og tilfinningar mannsins gagnvart dauðanum, ýmist við nýlega eða aldagamla texta úr sálumessuhefð kirkjunnar. Kórinn hefur nú hljóðritað nokkurs konar framhald þessa geisladisks, enda ber hann heitið Meditatio II, og kom nýverið út hjá sænska forleggjaranum BIS. Halldór Hauksson skrifar ljómandi góðan skýringartexta sem fylgir hinum nýja geisladiski og segir þar meðal annars um tónverkin: „Þau fjalla um sorg og söknuð á nærgætinn hátt og varpa birtu vonar og huggunar á slóð eftirlifenda.“ Verkin, með einni undantekningu, eru samin á 21. öldinni og þannig háttar raunar til að af sjö íslenskum tónskáldum sem eiga verk á disknum eru fimm þeirra núverandi eða þá fyrrverandi félagar í Schola Cantorum.

Flutningurinn er fyrsta flokks og hljóðið (eins og nánast alltaf hjá BIS) sallafínt en um er að ræða upptökur sem gerðar voru í Skálholtskirkju í september árið 2021. Jens Braun stjórnaði upptökum. Schola Cantorum hefur fyrir löngu skipað sér á stall sem einn besti kammerkór landsins (og þótt víðar væri leitað) og músíkalskur flutningur kórsins undir stjórn Harðar Áskelssonar á nýja geisladisknum er eftirminnilegur. Kórinn (21 söngvari) hefur á að skipa fallegum röddum en þær Rakel Edda Guðmundsdóttir, Ragnheiður Sara Grímsdóttir og Vigdís Sigurðardóttir syngja einsöng á diskunum í verkum eftir Daniel Elder („Elegy“) og útsetningu Johns Hearnes á „Fagurt er í fjörðum“. Textar (á íslensku og ensku) fylgja með.

„Nú legg ég þér í lófa“

Himindaggir

★★★★½

Verk eftir Arngerði Maríu Árnadóttur, Stefán Arason, Helga Rafn Ingvarsson, Þóru Marteinsdóttur, Björn Önund Arnarsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Guðnýju Einarsdóttur, Hörð Bragason. Útsetningar eftir Helga Rafn Ingvarsson og Hildigunni Rúnarsdóttur. Kordía, kór Háteigskirkju. Guðný Einarsdóttir (stjórnandi og orgelleikari). Kordía, kór Háteigskirkju, árið 2023. Heildartími: 45:42 mín.

Kordía, kór Háteigskirkju, var stofnaður árið 2018 og samanstendur af um 20 söngvurum (24 þegar kórinn er hvað fjölmennastur í sumum verka hins nýja geisladisks) sem margir eru mjög virkir í íslensku tónlistarlífi. Kórinn var stofnaður af Guðnýju Einarsdóttur, kórstjóra og organista kirkjunnar, og markmið hans er vandaður flutningur á kórverkum ólíkra tímabila tónlistarsögunnar. Eftir því sem ég kemst næst er Himindaggir fyrsti geisladiskurinn sem kórinn sendir frá sér en hljóðritanir fóru fram í Háteigskirkju í maí 2021 og maí og nóvember 2022 (fyrir utan verk Þóru Marteinsdóttur, „Nú legg ég þér í lófa“, sem var hljóðritað á tónleikum í Hörpu í júní 2022). Þorgrímur Þorsteinsson stjórnaði upptökum (nema í Hörpu en þar sá Georg Magnússon um hljóðupptökuna). Hljóðið er fínt. Textar (á íslensku og ensku) fylgja með.

Verkin (þrjú orgelverk og 12 kórverk) eru eftir tónskáld í yngri kantinum, enda er undirskrift geisladisksins einmitt íslensk kórtónlist á 21. öld. Sum verkanna eru einmitt tileinkuð kórnum. Flutningurinn er ljómandi góður og balans milli radda fínn. Margrét Hannesdóttir, Marteinn Sævarsson, Elfa Dröfn Stefánsdóttir og Una Dóra Þorbjörnsdóttir syngja einsöng á disknum. Mér fannst verk Þóru Marteinsdóttur, „Nú legg ég þér í lófa“ (sem er líka að finna á diski Schola Cantorum) einna eftirminnilegast en diskurinn er kannski í ívið styttra lagi; það hefði verið gaman að heyra kórinn syngja meira. Flutningur á því sem finna má á disknum er hins vegar mjög góður.

Fallegt en of stutt

Hrafnar

★★★½·

Verk eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Önnu Þorvaldsdóttur, Gunnstein Ólafsson, Jón Ásgeirsson, Oliver Kentish, Árna Harðarson, Þorkel Sigurbjörnsson og Þorkel Atlason. Háskólakórinn. Gunnsteinn Ólafsson (stjórnandi). Háskólakórinn, árið 2023. Heildartími: 34:56 mín.

Háskólakórinn var stofnaður árið 1972 og fagnaði því fimmtugsafmæli sínu í fyrra en samkvæmt lögum sem um kórinn gilda er markmið hans „að gefa félögum hans kost á að kynnast tónlist af ýmsu tagi og veita um leið öðrum innsýn í heim tónlistarinnar“.

Upptökur á nýjum geisladiski kórsins, Hrafnar, fóru fram í Neskirkju frá 2017 til 2022 (það er að segja fyrir og eftir kóvid) og upptökur voru í höndum Árna Möllers. Upptökum stjórnaði hins vegar Sverrir Guðjónsson. Hljóðið er fínt. Enginn bæklingur fylgir geisladisknum en honum má hlaða niður af heimasíðu kórsins (https://kor.hi.is/) og samkvæmt upplýsingum þaðan er Háskólakórinn að jafnaði skipaður 60-70 nemendum við Háskóla Íslands, bæði íslenskum sem og erlendum. Í rafræna bæklingum fylgja textar (á íslensku og ensku).

Verkefnaval kórsins að þessu sinni er íslenskt, þar á meðal verk eftir kórstjórann sjálfan, Gunnstein Ólafsson („Heilög Sesselja“ og „Nú vaknar þú mín þjóð“), en mér fannst bitastæðasta verkið á disknum vera „Heyr þú oss himnum á“ eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Það hefur verið hljóðritað að minnsta kosti fjórum sinnum áður (Schola Cantorum, Mótettukórinn, Hymnodia og Kór Clare College, Cambridge) og ég minnist þess ekki að hafa heyrt það flutt jafn hratt og Háskólakórinn gerir á hinum nýja diski. Verkið gengur eiginlega ekki upp í þessu tempói, það er að segja fær ekki að njóta sín til hlítar.

Um kórsönginn má segja að hann er fínn, balans góður og hljómurinn giska fallegur. Ég get þó ekki annað en gert athugasemd við hversu stutt prógrammið á disknum er, enda er hann ekki nema 35 mínútur. Það er of stutt og kórinn hefði vel getað bætt við efnisskrána, sérstaklega í ljósi þess á hve löngu tímabili diskurinn var hljóðritaður. Það sem heyra má er hins vegar að mestu gott.