Ásta J. Guðmundsdóttir fæddist 25. janúar 1918. Hún lést 4. mars 2023.

Útför Ástu fór fram í kyrrþey 28. mars 2023.

Elsku dásemdarfrænka mín hún Ásta er nú fallin frá á 106. aldursári. Við Ásta áttum mjög sérstaka og góða vináttu þrátt fyrir 57 ára aldursmun. Fyrst þegar hún var að koma með Sæmundi í Borgarnes fékk hún lánað herbergið mitt, við fórum í Skalló, fengum okkur ís, bíltúr upp í Lundarreykjadal eða gæddum okkur á góðgætinu sem hún var alltaf með í töskunni sinni. Ásta frænka átti nefnilega alltaf sælgæti sem maður fékk bara hjá henni. Á fermingardaginn minn var ofsaveður og nokkrir urðu frá að hverfa sem komu lengra að vegna veðursins en systurnar Ásta og Veiga létu það nú ekki aftra sér og komu með Sæmundi eldsnemma um morguninn til að missa nú ekki af þessari stóru stund í lífi mínu. Við fórum oft saman og sóttum kjúkling á Kjúklingastaðnum Suðurveri og tókum með heim til Ástu á Miklubrautina og áttum góðar stundir saman þar. Eftir að hún flutti í Aðalstrætið röltum við um miðbæinn og fengum okkur snarl þar sem okkur langaði til eða sátum heima og nutum félagsskaparins. Í Seljahlíðinni, þar sem Ásta frænka eyddi síðustu æviárunum, áttum við góðar stundir saman og leið henni mjög vel þar. Ásta frænka tók þátt í öllum stóru áföngunum í lífi mínu; fermingu, útskriftum, brúðkaupi og eftir að dætur mínar fæddust tók hún þátt í stórum áföngum í þeirra lífi og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Við Ásta frænka elskuðum að fara í bíltúr saman, hvort sem það var innanbæjar, á Suðurnesin eða sem var uppáhalds, í Lundarreykjadalinn og Borgarnes að heimsækja mömmu og pabba. Ásta frænka var mjög ern eins og aldurinn gefur til kynna, minnug og dugleg að sitja í bíl og ferðast allt þangað til Covid skall á og ekki mátti heimsækja hana eða sækja hana og fara með í bíltúr. Þá varð Ásta frænka allt í einu gömul á 103. aldursári. Þangað til var vel hægt að spjalla við hana um heima og geima og hún varð alltaf jafn hissa að ég skyldi ekki muna eitthvað sem gerðist í dalnum okkar græna árið 1940. Hún Ásta frænka var svo kærleiksrík og hjálpsöm og hafði mikinn áhuga á fólkinu sínu og hvað það var að fást við hverju sinni.

Elsku yndislega frænka mín, það sem ég á eftir að sakna þín, en kærar þakkir fyrir samveruna, vináttuna og kærleikinn sem ég fékk að njóta með þér fyrstu 48 ár ævi minnar. Hvíldu í friði og minningin um bestu Ástu frænku lifir.

Þín

Sólveig Ásta.