Af þessu leiðir að jafnvel einstaklingur sem telur sig fullvissan um að búið væri að renna af sér, teldist brotlegur gegn umferðarlögum ef slík efni mældust í blóði hans og yrði gerð refsing.

Lögfræði

Arnar Vilhjálmur Arnarsson

Lögmaður og eigandi Bótamál.is

Er ávallt óheimilt að stjórna ökutæki eftir neyslu ávana- og fíkniefna eða eru til aðstæður þar sem slíkt telst vera afsakanlegt, svo sem vegna villu um vínanda í blóði? Frá gildistöku umferðarlaga nr. 77/2019 eru reglurnar um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða tiltekinna lyfja, orðnar afar afdráttarlausar. Þrátt fyrir það ber reglulega á góma spurningar því tengdu og því tilefni til að gera þeim stuttlega skil.

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 má enginn stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum áfengis. Sambærilegt bann er lagt í 1. mgr. 50. gr. laganna í tilvikum ávana- og fíkniefna eða vegna neyslu lyfja sem hafa áhrif á aksturshæfni. Í 2. mgr. 50. gr. laganna segir svo að ökumaður teljist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða lyfja og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef ávana- og fíkniefni eða lyf mælist í blóði hans.

Af framangreindum reglum leiðir að ef það mælist ávana- og fíkniefni eða lyf í blóði ökumanns telst hann hafa gerst brotlegur gegn umferðarlögum og breytir huglæg afstaða hans engu í þeim efnum. Þannig skiptir ekki máli þótt einstaklingur hafi staðið í góðri trú um að hann sé fullfær um að stjórna ökutæki, til dæmis verið í villu um það að hafa ekki neytt ávana- og fíkniefna eða lyfja sem skerða aksturshæfni. Af þessu leiðir að jafnvel einstaklingur sem telur sig fullvissan um að búið væri að renna af sér, teldist brotlegur gegn umferðarlögum ef slík efni mældust í blóði hans og yrði gerð refsing. Um það atriði má líka benda á 5. mgr. 49. gr. laganna sem varðar áfengisakstur, þar sem segir beinlínis að það leysi ökumann ekki undan sök þótt hann ætli vínandamagn minna en sem nemur bönnuðum mörkum.

Menn geta ekki komið sér undan því að veita lögreglu blóðsýni ef þess er krafist af hálfu lögreglunnar vegna gruns um að einstaklingurinn hafi gerst brotlegur gegn banni við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða lyfja sem hafa áhrif á aksturshæfni samkvæmt 52. gr. umferðarlaganna, en í 3. mgr. þess ákvæðis segir síðan að neiti ökumaður að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við slíka rannsókn er lögreglu heimilt að beita valdi við framkvæmd rannsóknar.

Margar sögur gengu áður um menn sem komu sér undan refsiábyrgð eftir að lögregla gómaði þá við að keyra undir áhrifum, með því að hella í sig áfengi áður en rannsókn var framkvæmd svo sem blóðsýnataka á vínanda eða fíkniefnum í blóði, en þar með var erfitt að fullyrða um áfengismagn í blóði viðkomandi á þeim tíma sem hann ók. Um sannleiksgildi slíkra sagna verður ekki fullyrt en hverju sem því líður er nú búið að taka fyrir allt slíkt með 5. mgr. 52. gr. hinna nýju umferðarlaga síðan 2019 þar sem má finna nýmæli sem gerir neyslu ökumanns á áfengi og öðrum örvandi eða deyfandi efnum óheimila næstu sex klukkustundir eftir að akstri lýkur ef ökumaður má ætla að aksturinn geti orðið tilefni lögreglurannsóknar, s.s. eftir að umferðaróhapp hefur átt sér stað. Með breytingunni eru möguleikar á snúningum líkt og fyrr greinir, útilokaðir og raunar væru slíkar tilraunir í dag lítið annað en sjálfsmark.

Það er því mikilvægt að vara fólk við því að neyta ávana- og fíkniefna fyrir akstur og ríki minnsti vafi á að slík efni kunni að vera enn í blóði manna, bæri að forðast það að setjast við stýrið. Samantekið mætti vísa til gamalla ballreglna sem kvað á um að „ölvun ógildir miðann“, því flóknara er það í rauninni ekki.