Lónið Þrjár manneskjur stíga út fyrir þægindarammann í leit að hugarró og vellíðan í amstri hversdagsins.
Lónið Þrjár manneskjur stíga út fyrir þægindarammann í leit að hugarró og vellíðan í amstri hversdagsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir nokkrar vikur af því þá fengum við öll ógeð á að tala um Covid.

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Þrjár mannverur stíga út fyrir þægindarammann í leit að hugarró og vellíðan í amstri hversdagsins. Þau leggja af stað í sjálfnærandi ferðalag, hannað fyrir bæði líkama og sál, en að ná fulkominni slökun hefur aldrei verið eins mikilvægt og á tímum sem þessum.“

Svo hljómar kynningartexti fyrir leikverkið Lónið sem sýnt verður í Tjarnarbíói annað kvöld. Höfundur verksins og leikstjóri er Magnús Thorlacius en leikverkinu skilaði hann inn sem útskriftarverkefni af sviðslistabraut Listaháskóla Íslands í fyrra.

Leit að sjálfsmynd

Á tímum sem þessum … hvaða tímar eru það?

„Einmitt, þarna er verið að vísa í hið síðkapítalíska ástand þar sem reynt er að gera allar upplifanir neysluvænar. Í verkinu er sviðsmyndin tákn fyrir þessa baðlóna-byltingu á Íslandi þar sem manngerðar náttúruperlur hafa verið búnar til með það að markmiði að græða peninga. En inntak verksins er svo rannsókn á hinni vestrænu nútímamanneskju sem býr við svo gríðarleg forréttindi og hefur í raun alltof mikinn tíma á sínum höndum því hún þarf varla að gera nokkurn skapaðan hlut til að lifa af, sem gerir það svo að verkum að hún er í eilífri leit að tilgangi eða sjálfsmynd.“

Eru þessar þrjár mannverur á sviðinu meðvitaðar um „ástandið“?

„Sko, þetta er ekki beint hefðbundið leikrit þar sem persónurnar eiga í venjulegu samtali eins og maður hefur vanist í leikhúsi. Þær flytja langar einræður þar sem þeirra staða verður nokkuð augljós, en nei, það er ekki hægt að segja að þær geri sér fyllilega grein fyrir því hvar þær eru staddar. Enda ekki þrívíðar persónur með baksögu heldur frekar fígúrur eða táknmyndir sem standa við eitthvað stærra utan við verkið.“

Orðræðan raunveruleg

Magnús segir að hugmyndin að persónunum sé sprottin upp úr viðbrögðum almennings við bólusetningarátakinu í Covid.

„Ein persónan er samsæriskenningaglöð, segir að það séu hlutir í gangi og leynilegir pappírar sem almenningur fær ekki að sjá. Önnur er að hugsa mikið um eigið mataræði og lífsstíl og hvernig það getur skipt sköpum í baráttunni og sú þriðja trúir því að þetta séu allt ein stór mistök og að það sé verið að nota samstöðu sem kúgunartól.“

Hins vegar sé hvergi minnst á Covid berum orðum né bólusetningar, heldur aðeins orðræðunni sjálfri hjá fólki sem upplifir sig á skjön við samfélagið.

Er þessi orðræða kannski tekin upp úr fjölmiðlaumræðu eða samræðum á samfélagsmiðlum?

„Já, textinn er að miklu leyti tekinn upp úr pistlum í blöðum, kommentakerfum og Facebook-statusum. Samblanda úr öllum áttum sem nær ákveðnum þverskurði á samfélaginu, finnst mér.“

Verk í sjö hlutum

Eins og fyrr sagði er leikritið útskriftarverkefni Magnúsar af sviðslistabraut en í því námi lék Covid nokkuð stórt hlutverk.

„Við vorum að búa til leikhús í miðjum heimsfaraldri þar sem ekki var hægt að koma saman vegna takmarkana, sem voru í raun hræðilegar aðstæður til að vera í sviðslistanámi þar sem allt snýst um að fá fólk saman í rými. Þegar kom að því að skrifa útskriftarverkefnið þá var ég kominn með mjög alvarlega listræna þreytu og datt ekkert í hug nema að gera verk um Covid og bólusetningar. Svo að þarna vorum við átta eða níu saman í hóp að skoða bólusetningar og samsæriskenningar og öll þessi öfgakenndu viðbrögð sem við sáum grassera í samfélaginu. En svo eftir nokkrar vikur af þeirri vinnu þá fengum við öll ógeð á að tala um Covid svo við tókum algjöra U-beygju og ákváðum að gera leiksýningu um baðlón.“

Verkið hafi á endanum þó orðið að blöndu af þessu tvennu.

„Verkið er í sjö hlutum sem spegla þessi sjö skref í Sky Lagoon en öll vinnan sem við höfðum unnið út frá Covid lifir í persónum verksins.“

Fyrir utan sýninguna annaðkvöld verður Lónið sýnt 24. maí og 1. júní. Miðasala og frekari upplýsingar á heimasíðu Tjarnarbíós, tjarnarbio.is. Flytjendur verksins eru Bjartey Elín Hauksdóttir, Jökull Smári Jakobsson og Melkorka Gunborg Briansdóttir.

Höf.: Höskuldur Ólafsson