Litla-Hraun Mat var lagt á fjölda fanga miðað við íbúatölu í Evrópu.
Litla-Hraun Mat var lagt á fjölda fanga miðað við íbúatölu í Evrópu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hlutfall fanga af íbúafjölda í Evrópulöndum er hvergi lægra en á Íslandi, samkvæmt nýjum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Hér á landi voru 38-39 fangar á hverja hundrað þúsund íbúa á árinu 2021 og hefur Ísland verið lægst í sambærilegum samanburði um árabil

Hlutfall fanga af íbúafjölda í Evrópulöndum er hvergi lægra en á Íslandi, samkvæmt nýjum samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Hér á landi voru 38-39 fangar á hverja hundrað þúsund íbúa á árinu 2021 og hefur Ísland verið lægst í sambærilegum samanburði um árabil.

Tölur Eurostat ná yfir 30 Evrópulönd. Næstlægsta hlutfall fanga miðað við höfðatölu íbúa var í Finnlandi eða 51 fangi á hverja hundrað þúsund íbúa, Slóveníu (54), Hollandi (65) og Noregi (68).

Flestir fangar sem hlutfall af íbúafjölda eru í Ungverjalandi og Póllandi eða 191 fangi á hverja hundrað þúsund íbúa og í Slóvakíu 185 á árinu 2021.

Næstlægsta tíðnin á einu ári

Á árinu 2021 voru 475.038 fangar í löndum Evrópusambandsins eða sem samsvarar 106 föngum á hverja hundrað þúsund íbúa. Fjölgaði föngum nokkuð í mörgum landanna á árinu frá árinu á undan, en eftir sem áður er þessi fjöldi fanga í Evrópulöndum sá annar lægsti miðað við höfðatölu, frá því um seinustu aldamót.

Eurostat bar einnig saman fangelsisrými í löndunum og kemur í ljós að í átta Evrópulöndum voru fangelsin yfirfull. Fjöldi fanga fór þar yfir hámarks afplánunarrými í fangelsum þessara landa, sem eru Kýpur, Rúmenía, Frakkland, Grikkland, Ítalía, Svíþjóð, Króatía og Danmörk.

Ísland er í hópi landa þar sem ástand þessara mála var mun betra og fangelsisplássin ekki nýtt 100% yfir árið 2021, samkvæmt samanburði Eurostat. omfr@mbl.is