Jón Friðberg Hjartarson
Jón Friðberg Hjartarson
Auk þess bendir hann á skrök ríkisskattstjóraembættisins um að oftekinn skattur á árunum 1988-1995 hafi verið leiðréttur með hækkun persónuafsláttar.

Jón Friðberg Hjartarson

Með grein sinni „Tvísköttun“ í Morgunblaðinu (bls. 16) 5. þ.m. greinir Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, frá meintu stjórnarskrár- og mannréttindabroti Alþingis með löggjöf sinni á skattheimtu lífeyrisgreiðslna á greinargóðan hátt. Auk þess bendir hann á skrök ríkisskattstjóraembættisins um að oftekinn skattur á árunum 1988-1995 hafi verið leiðréttur með hækkun persónuafsláttar. Þá er rakinn misskilningur Umboðsmanns Alþingis (Kjartans B. Björgvinssonar, setts UMBA) á hlutverki sínu um að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum og enn fremur afglöp stjórnskipulags- og eftirlitsnefndar alþingis með því að vísa erindi um lagfæringu frá.

Hvað gera menn þá?

Mun forseti Íslands verja stjórnarskrána og beita sér fyrir að þessi meintu mistök verði leiðrétt og eiga frumkvæði að því að virkja aðila máls til endurskoðunar?

Mun ríkisskattstjóri biðjast afsökunar á bréfi embættisins til Skólameistarafélags Íslands þar sem rangfærslan var lögð fram og leiðrétta tvísköttunina?

Mun formaður stjórnskipulags- og eftirlitsnefndar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, biðjast afsökunar á vanreifun sinni og taka málið fyrir á víðsýnni grunni en hingað til?

Mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra beita sér fyrir lagasetningu til að leiðrétta téð vinnubrögð Alþingis?

Mun ríkisendurskoðun eiga frumkvæði að leiðréttingu málsins?

Evrópuráðið fundar nú á Íslandi til að ræða m.a. mannréttindabrot og væri það góður liður í undirbúningi þess fundar að ríkisstjórnin gerði allt sem í hennar valdi stendur til að uppræta mannréttinda- og stjórnarskrárbrot á Íslandi og sýna gott fordæmi. Væri þá verðugt að muna einnig eftir málum fatlaðra og eldri borgara. Þurfum við Íslendingar að sækja málið fyrir dómstólum á erlendri grundu?

Höfundur er fyrrverandi lands- dómari og skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Höf.: Jón Friðberg Hjartarson