Leiðtogafundur 50 leiðtogar ríkja Evrópuráðsins og alþjóðastofnana hlýddu á áhrifamikla ræðu Volodymírs Selenskís Úkraínuforseta, en vonir um að hann kæmist á fundinn brugðust.
Leiðtogafundur 50 leiðtogar ríkja Evrópuráðsins og alþjóðastofnana hlýddu á áhrifamikla ræðu Volodymírs Selenskís Úkraínuforseta, en vonir um að hann kæmist á fundinn brugðust. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við komum ekki hingað saman til þess að fagna, heldur í skugga stríðs,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í setningarræðu sinni á leiðtogafundi Evrópuráðsins, sem hófst í Hörpu síðdegis í gær

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

„Við komum ekki hingað saman til þess að fagna, heldur í skugga stríðs,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í setningarræðu sinni á leiðtogafundi Evrópuráðsins, sem hófst í Hörpu síðdegis í gær. Hún lagði mikið upp úr samstöðu lýðræðisríkja Evrópu með Úkraínu, svo hún gæti hrundið árás Rússa og öðlast bæði frið og réttlæti.

Stríðið í Úkraínu er helsta umfjöllunarefni fundarins, en vonir höfðu staðið til þess að Volodimír Selenskí Úkraínuforseti yrði meðal fundargesta. Svo fór þó ekki en þess í stað flutti hann mikla brýningarræðu á skjá í beinni útsendingu frá Kænugarði. Þar sagði hann Úkraínumenn leggja sig alla fram til þess að endurheimta allt land sitt og hvatti Vesturlönd til að leggja fram allt sem þau gætu til þess að styrkja varnarmátt Úkraínu.

Ýmsir aðrir þjóðaleiðtogar tóku undir, þar á meðal Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, og Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta, en sá síðastnefndi hafði fyrr um daginn kynnt áform um alþjóðlegt átak til þess að verða Úkraínu úti um orrustuflugvélar. Katrín Jakobsdóttir átti auk þess fjölda tvíhliða funda með ýmsum ríkjaleiðtogum, bæði formlega fundi og ýmis óformlegri samtöl á göngum Hörpu, auk hringborða leiðtoga um afmarkaðri mál og vinnukvöldverðar. Sá tvíhliða fundur sem mesta athygli vakti var án efa fundur Katrínar með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), sem er ótengt Evrópuráðinu.

Þar var meðal annars rætt um fyrirhugaða löggjöf ESB um losunarheimildir og skattheimtu á flugferðir og áhrif þeirra á íslensk flugfélög. Fram kom að þær hefðu komist að samkomulagi um bráðabirgðalausn fyrir Ísland, sem fæli í sér losunarheimildir árin 2025 og 2026.

Icelandair

Eykur vonir

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tekur fréttum af lausn í losunardeilunni vel en af varúð. Smáatriðin séu eftir, en gott að Evrópusambandið hafi hlustað á íslensk sjónarmið. » 6

Höf.: Andrés Magnússon