Bjarki Júlíusson fæddist 30. apríl 1956 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans 8. maí 2023.

Foreldrar hans voru Júlíus Kristinn Jóhannesson verslunarmaður, f. 1909, d. 1982, og Helga Guðjónsdóttir húsmóðir, f. 1924, d. 2001. Systkini Bjarka eru Sigríður, f. 1948, d. 2012, Svava, f. 1950, Bryndís, f. 1953, og Valur, f. 1962.

Bjarki lauk námi frá MR árið 1976. Hann útskrifaðist með próf í viðskiptafræði frá HÍ árið 1982 og fékk í framhaldinu réttindi sem löggiltur endurskoðandi. Bjarki starfaði lengi við fjármálastjórn fyrirtækja og má þar nefna Hótel Sögu og Kaupás áður en hann færði sig yfir í eigin fyrirtækjarekstur.

Bjarki átti og sá um rekstur á hótelinu Room with a view síðustu æviárin.

Bjarki var viðloðandi ýmis fyrirtæki og einstaklinga sem löggiltur endurskoðandi og tók þátt í ýmsum verkefnum s.s. í fasteignaviðskiptum, fyrirtækjarekstri og tók þátt í starfi ýmissa samtaka. Bjarki var ætíð viðloðandi tónlist og spilaði á gítar frá unga aldri. Hann samdi og tók upp tónlist og má þar nefna plötu sem hann tók upp fyrir ættingja og vini sem bar heitið Ekki enn.

Bjarki kvæntist árið 1977 Ingibjörgu Höskuldsdóttur, f. 1957, þau skildu. Barn þeirra er Ólafur Brynjar, f. 1977, maki Valgerður Björg Hafsteinsdóttir, börn þeirra eru: Matthildur Agla, f. 2005, Nói Hrafn, f. 2007, Sölvi Steinn, f. 2012, og Baldur Orri, f. 2014.

Bjarki eignaðist Helgu Gunnlaugu, f. 1992, með þáverandi sambýliskonu, Klöru Gunnlaugsdóttur Lucas, f. 1965. Þau slitu samvistum. Maki Helgu er Sorin Cimpan.

Bjarki kvæntist árið 1999 Elfu Björk Björgvinsdóttur, f. 1967. Þau skildu. Börn þeirra eru Björgvin Logi, f. 2002, og Benjamín Logi, f. 2003.

Eftirlifandi sambýliskona Bjarka er Dalia Ruzgailaité, f. 1985.

Útför hans fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 17. maí 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi lést 8. maí á líknardeild Landspítalans eftir erfið en skammvinn veikindi. Það er tómlegt að skrifa þessi orð til minningar um mann sem hafði svo mikil og sterk áhrif á líf mitt. Maður sem alltaf mátti leita til og mætti segja að hafi verið klettur í mínu lífi. Það er þessi klettur sem er haldreipi í lífsins ólgusjó - sem stundum hverfur sjónum en er alltaf þarna. Hann var sá sem ég gat hringt í til að spyrja álits, mitt fyrsta símtal í vanda eða stutt spjall til að róa taugarnar. Með aldrinum minnkaði þörfin og maður lærði að standa á eigin fótum. Hann var samt alltaf til staðar ef á þurfti.

Svo er það þetta með áhrifin. Það tekur líklega tíma að skilja hvaða áhrif fólk hefur á mann. Kannski skilur maður það aldrei. Mér fannst lengi vel að við pabbi værum svo ólíkar týpur að við ættum lítið sameiginlegt. Nema kannski hvað við erum áþekkir í útliti. En svo líða árin og maður fer að tengja við alls konar eiginleika. Eiginleika eins og ábyrgð, vinnusiðferði, vinnusemi, að rækta innri mann ásamt mörgu öðru. Pabbi var líklega duglegasti maður sem ég þekki. Hann var alltaf að vinna. Hann var skynsamur, gáfaður, með húmor og gott hjartalag. Hann elskaði tónlist og spilaði á hljóðfæri. Hann kynnti mig fyrir alls konar tónlist; Pink Floyd, Simon & Garfunkel, Bítlunum. Platan sem minnir mig alltaf á hann er Stardust með Willie Nelson.

Það eru margar góðar minningar af pabba. Það sem kemur helst upp í hugann eru árin sem við bjuggum tveir saman. Fyrst í Hraunbænum og svo í Hlíðunum. Hann einstæður faðir um þrítugt að púsla lífinu aftur saman og að ala upp 10 ára dreng. Mér fannst hann alltaf svo fullorðinn og með allt á hreinu. Það voru góð ár og gott að vera til. En auðvitað miklu fleiri minningar. Árin í Breiðholti, í Skaftahlíð, í Sigluvogi og svo margt fleira.

Það er erfitt að hugsa til þess hvað lífið getur breyst hratt. Að greinast með krabbamein og deyja á þremur mánuðum. Sem kennir manni að nýta tímann vel og njóta augnabliksins. Það var gott að ná þessum síðustu vikum með honum og fá að heyra hvað hann hafði heilbrigt viðhorf til lífsins og dauðans. Hann var sáttur við sitt lífshlaup og stoltur af öllu því sem hann hafði áorkað. Hann var stoltur af okkur börnunum hans sem sátum með honum síðasta afmælisdaginn.

Svo er það þetta með síðasta samtalið. Þótt það væri vitað í hvað stefndi þá næ ég illa utan um að mitt síðasta samtal við hann hafi verið á föstudaginn. Ég stoppaði stutt og spjallaði um daginn og veginn. Eitthvað með hugann við annað sem var á döfinni. Ég hélt við hefðum meiri tíma. En það var mikilvægt að fá að kveðja hann í dag og sitja með honum þangað til yfir lauk.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki á krabbameins- og líknardeildum Landspítalans fyrir að hlúa að pabba síðustu sporin. Það er ómetanlegt starf sem þar er unnið.

Takk fyrir allt pabbi minn.

Ólafur Brynjar (Óli).

Faðir minn var sterkur og sanngjarn faðir. Hann kenndi mér að vera jákvæður og alltaf horfa fram á við, sama hversu erfitt það gæti verið. Margir þekktu pabba sem óttalausan leiðtoga sem bar með sér ótrúlega hæfileika í viðskiptum. Ég þekkti pabba sem listamann sem hafði mikla ástríðu fyrir tónlist og bókmenntum, alltaf með gítar í annarri hendi og bók í hinni. Það var gott að tala við hann þar sem hann bjó yfir æðislegri þekkingu og kunnáttu um alls kyns jarðbundin umræðuefni en einnig var augljóst að hann var alltaf í pælingum um heiminn og geiminn. Fyrst og fremst var pabbi minn tákn öryggis í lífi mínu og gat ég alltaf treyst á hann að veita mér leiðsögn eða vitneskju þegar ég þurfti á henni að halda. Minning sem kemur í hugann er frá mínum barnsárum þegar ég var ægilega myrkfælinn. Eins og mörg börn átti ég erfitt með að sofna og leið óþægilega þegar háttatími brast á. Það sem lét mér alltaf líða betur var hann pabbi minn. Oft spilaði hann tónlist fyrir mig og bróður minn, þessi tónlist í dag vekur minningar um gleði og kæruleysi barnæsku. Stundum lá ég andvaka upp í rúmi þangað til ég heyrði í pabba niðri í stofu taka upp gítar og raula eða kveikja á sjónvarpi eftir langan vinnudag. Þá leið mér alltaf vel og sofnaði stuttu seinna. Það er mögulega myndlíking fyrir líf mitt þar sem mér hefur alltaf liðið vel að vita af pabba, sama hvar ég var staddur í þessu flókna lífi. Nú er hann pabbi minn farinn og það sem situr eftir í mér er þetta hörkutól sem ég horfði alltaf upp til. Með því að fylgjast með honum hef ég öðlast þetta sjálfstæði og lært að allt það sem gerir manneskju góða kemur að innan. Ég elska þig pabbi og vonandi sjáumst við í næsta lífi.

Björgvin Logi Bjarkason.

Elsku bróðir. Nú hefur þú kvatt þennan heim alltof snemma. Veikindi þín komu snöggt og voru grimm. Þau voru eins og rothögg á þína nánustu fjölskyldu og vini. Ekki er langt síðan ég hitti þig sprækan og glaðan, og á þeirri stundu var ekki hægt að ímynda sér að þú væri veikur eða að þú myndir látast innan tveggja mánaða. Mínar fyrstu minningar úr æsku tengjast þér, en þá var ég þriggja ára. Ég upplifi það eins og það hafi gerst í gær þegar þú fæddist. Við eldri systur þínar sátum inni í stofu á meðan þú varst að fæðast inni í herbergi. Ég man líka ljóslifandi þegar við tvö vorum skírð heima hjá Emil Björnssyni presti sem átti líka heima á Sogaveginum. Þú varst brosmildur og blíður í hvíta skírnarkjólnum þínum, en ég faldi mig á bak við stól og grét. Við lékum okkur mikið saman og tengdumst vináttuböndum sem aldrei slitnuðu í gegnum lífið, þó að oft væri fjarlægð á milli okkar. Þegar við vorum unglingar í sveit hjá ömmu og afa á Mýrunum var margt brallað. Þú varst kátur og geðgóður og með stórkostlegan húmor. Það voru mörg kvöldin sem við systkinin spiluðum á gítar og sungum alla helstu slagarana og þjóðlögin sem þá voru í tísku. Bar þar hæst lagið „Hvað skal með sjómann sem er á því“. Við fórum í útreiðartúra á sléttum söndunum og við böðuðum okkur í sjónum. Við elskuðum fjörurnar þar sem ýmislegt dót rak á land sem við höfðum í búin okkar. Við fórum með vagnhestinn niður í fjörur til að tína rekavið sem amma notaði í eldinn. Þú áttir lífsgleði og húmor sem einkenndi þig í gegnum allt lífið. En lífið kastar oft einhverju í okkur sem enginn getur stjórnað. Þú áttir svo mikið inni, en enginn ræður sínum næturstað.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Bryndís Júlíusdóttir.

Það er erfitt að horfa á eftir einum sinna bestu vina sem maður hefur þar að auki þekkt í rúm 50 ár.

Bjarki og ég kynntumst á fyrsta ári okkar í MR og urðum fljótt mjög góðir vinir. Það sem batt okkur saman í fyrstu var áhugi okkar á tónlist og þá helst breska rokkið og þar sem ég hafði búið um tíma í Bandaríkjunum kom ég auk þess með amerískar rokkplötur til hlustunar. Bjarki var skrefi ofar en ég í tónlistinni þar sem hann gat spilað á nokkur hljóðfæri en aðallega þó á gítar sem var aldrei langt undan. Gítarsnilld Bjarka gerði hann vinsælan í fjölmörgum partíum með bekkjarfélögunum og öðrum vinum.

Að loknu stúdentsprófi hófum við Bjarki nám í Háskóla Íslands. Bjarki fór í viðskiptafræði og að námi þar loknu tók hann enn eitt próf og varð löggiltur endurskoðandi. Eftir HÍ fór ég í framhaldsnám til Bandaríkjanna og gerðist Bjarki þá minn fjárhalds- og ábyrgðarmaður á námslánum og gat ég ekki fengið traustari mann til að sinna þeim málum. Eftir nám mitt erlendis fékk ég vinnutilboð þar og ílengdist til fjölda ára. En bönd okkar Bjarka slitnuðu aldrei og til að byrja með skrifuðumst við á, en seinna meir þegar kostnaður símtala til útlanda hafði nánast horfið, þá áttum við oft löng skemmtileg símtöl þar sem við rifjuðum upp gömlu góðu dagana og röfluðum um allt milli himins og jarðar. Ég og fjölskylda mín komum oft í heimsókn til Íslands og alltaf náðum við að hitta Bjarka sem tók vel á móti okkur og var hann virkilegur höfðingi heim að sækja. Það var einnig sérstök ánægja að fá Bjarka í heimsókn til Bandaríkjanna þar sem við ferðuðumst um og skoðuðum marga staði.

Fyrir rétt tveimur mánuðum hringdi Bjarki í mig og sagði mér að hann hefði greinst nýlega með krabbamein og væru horfur mjög slæmar. Ég náði að heimsækja hann nokkrum sinnum á spítalann og var Bjarki alltaf sami harðjaxlinn og sagði að svona væri bara lífið. Hann sagðist vera sáttur við líf sitt og hann væri sérstaklega stoltur af börnunum sínum fjórum sem voru honum kærari en allt annað.

Ég vil að lokum þakka Bjarka fyrir þann góða vinskap sem við áttum í um 50 ár. Ég vil votta börnum Bjarka, þeim Ólafi, Helgu, Björgvini og Benjamín ásamt Dalíu sambýliskonu hans og öllum öðrum aðstandendum, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Karl Ragnarsson.

Þær kalla fram bros og birtu, minningar okkar bekkjarbræðranna í 6. R frá menntaskólaárunum í MR. „Smándarnir“, eins og við kölluðum okkur, undum okkur vel í litlu F-stofunni. Við sátum þétt saman og stofnuðum til ævilangrar vináttu, sem reyndist ígildi fóstbræðralags. Í hinum líflega R-bekk fann Bjarki Júlíusson sig vel og því er sorgin sár þegar kær bekkjarfélagi er skyndilega horfinn frá okkur eftir stutt en erfið veikindi. Við Smándarnir hefðum ábyggilega mátt sýna meiri metnað er við gengum saman menntaveginn í stað þess að vera með stöðug fíflalæti. En hjá okkur var þetta græskulaus glettni og frjálsleg framkoma, sem góðir kennarar skemmtu sér yfir en hinir síðri létu fara í taugarnar á sér, sem æsti auðvitað Smánda enn frekar.

Bjarki var einstaklega þægilegur og traustur bekkjarbróðir og vinur, ómissandi í hópnum. Hann var gítarsnillingur og mætti alltaf með gítarinn sinn vel stilltan í skemmtilegu bekkjarpartíin okkar. Bjarki bjó yfir bjartri söngrödd, og hann leiddi okkur gegnum langan lagalista, því drengurinn kunni öll lögin á textablöðunum og alltaf í réttri tóntegund.

Bjarki var sannarlega hæfileikaríkur félagi sem sannaðist síðar í fjölmörgum áhrifastörfum sem hann tók að sér, eftir að hafa aflað sér menntunar í viðskiptafræðum við Háskóla Íslands til viðbótar réttindanámi í endurskoðun. Bjarki starfaði við fyrirtækjarekstur og kom þar víða við og nú síðast rak hann, ásamt sambýliskonu sinni Dalíu Ruzgailaite, hið glæsilega íbúðahótel Room with a view á besta stað bænum.

Okkur bekkjarbræðrum Bjarka auðnaðist að viðhalda vináttunni með árlegum árshátíðum ásamt mökum, fjölskylduhátíðum úti á landsbyggðinni og sameiginlegum utanlandsferðum í heimsókn til bekkjarbræðra sem bjuggu erlendis. Bjarki var einn þriggja í Bílstjórafélaginu sem skipulagði okkar velheppnuðu utanlandsferðir. Bjarki samdi bæði lög og ljóð, mest fyrir sjálfan sig en líka lag og ljóð við „þjóðsöng“ Smánda, meinfyndinn brag um skólaárin, eftirminnilega kennara og Guðna rektor. Mikið stemningslag sem við bræðurnir tróðum upp með, meira af vilja en mætti, á útskriftarafmælum.

Ekki grunaði okkar nú í janúar, þegar efnt var til árshátíðar Smánda, að það yrðu okkar síðustu fundir. Bjarki mætti að venju glaður og reifur. Stoltur kynnti hann okkur nýja sambýliskonu sína, Dalíu, sem með nærveru sinni féll strax inn í hópinn. Í marsmánuði leitaði ég til þeirra Bjarka og Dalíu um að hýsa litháíska skákfélaga mína í nokkra daga. Þeirri beiðni var svarað jákvætt og stóðst allt sem stafur, líkt og annað í okkar samskiptum. Þrátt fyrir besta aldur þá erum við R-bekkingar í MR að kveðja okkar fjórða félaga og er þar með fjórðungur hópsins horfinn á braut. Minningin um kæran og traustan vin lifir í góðum minningum um ómetanlega vináttu.

Við bekkjarbræður Bjarka Júlíussonar vottum Dalíu og fjórum börnum hans innilega samúð og óskum félaga okkar blessunar á nýjum vegum.

Helgi Árnason.