Ljóðrænt „Það sem heillar mig er hvað þetta [vídeóverk] er stór miðill, sem getur líka verið ljóðrænn, og býr yfir endalausum möguleikum.“
Ljóðrænt „Það sem heillar mig er hvað þetta [vídeóverk] er stór miðill, sem getur líka verið ljóðrænn, og býr yfir endalausum möguleikum.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndlistarsýningin Leiðni leiðir eftir Sigurð Guðjónsson verður opnuð í Verksmiðjunni á Hjalteyri laugardaginn 20. maí kl. 14. Umsjón með sýningunni hefur Gústav Geir Bollason og stendur hún til 16

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Myndlistarsýningin Leiðni leiðir eftir Sigurð Guðjónsson verður opnuð í Verksmiðjunni á Hjalteyri laugardaginn 20. maí kl. 14. Umsjón með sýningunni hefur Gústav Geir Bollason og stendur hún til 16. júlí. Listamaðurinn vann verk sitt, vídeóverk, sérstaklega fyrir sýninguna. „Þetta er 2.000 fermetra verksmiðja og alveg hrá. Maður fær innblástur bara við það að ganga þarna inn. Þarna er stórt rými og mikil lofthæð,“ segir Sigurður. „Verksmiðjan er á þremur hæðum og ég hugsa þetta sem heild þannig að byggingin sjálf verður hluti af verkinu. Verkið fellur inn í hana og þannig er verksmiðjan algjörlega samofin verkinu. Áhorfandinn ferðast á milli hæða og fær aðra upplifun af verkinu eftir því hvar hann er staddur hverju sinni.“

Filmar rafmagnið

Sigurður segist hugsa verkið í þremur köflum. „Það er vídeóefnið sjálft, rýmið og hljóðheimurinn. Myndheimurinn er innblásinn af ljósmyndatækni sem var fundin upp í kringum 1900 og byggist á því að ef hlutur er settur á ljósnæma plötu og háspennurafmagn sent inn í plötuna þá framkallast mynd. Í staðinn fyrir að búa til mynd af hlut þá filma ég rafmagnið og sé hvernig það leiðir um.“

Hljóðheimurinn kemur úr vídeóefninu sjálfu. „Hann samanstendur annars vegar af rafhljóðum sem koma beint úr myndefninu sem ég umbreyti svo í vinnsluferlinu og hins vegar hljóðupptökum sem ég vann með Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara. Við hljóðrituðum enduróm úr innviðum flygils sem Tinna spilar á, en við lögðum upp með að fanga hljóðið sem ómar eftir að maður heggur á strengina. Hljóðmyndin er svo spiluð í göngum sem eru á jarðhæð hússins og ómar um salina.“

Rýmið sem fjölskynjunarskúlptúr

Spurður hvernig tilfinningu hann vilji skapa þegar fólk gengur inn í rýmið segir hann: „Ákveðinn tærleiki er alltaf það sem ég er að sækjast eftir þegar ég vinn og vonin er sú að í verkunum felist tækifæri fyrir hvern og einn til að skynja. Þessi verksmiðja er áhugaverð, hún er eins og svart–hvítur kastali en ég nota rafmagnsbláan lit til að skapa andstæðu inni í verksmiðjunni og vona að verkið hreyfi við einhverju innra með þeim sem heimsækja staðinn.“

Á ferlinum hefur Sigurður einbeitt sér að því að gera vídeóverk, hvað heillar hann við þau?

„Ég hef unnið með þessa tímatengdu miðla; hljóð, tónlist og vídeó. Það er allt inni í því; hreyfing, ljós og tími. Það sem heillar mig er hvað þetta er stór miðill, sem getur líka verið ljóðrænn, og býr yfir endalausum möguleikum. Það hentar mér því ég vinn oftast inn í sjálf sýningarrýmin og eins og í þessu tilviki hugsa ég rýmið og verkið sem fjölskynjunarskúlptúr sem vonandi kallar fram og býður upp á ólíka upplifun og túlkun hjá þeim sem heimsækja verkið hverju sinni.“

Hann segir verk sitt á Hjalteyri hafa verið í vinnslu frá síðasta sumri og áður en hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022 hafi verið ákveðið að hann sýndi í Verksmiðjunni. „Þannig að ég ákvað að nota þessa sýningu til að búa til nýtt verk. Það er ákveðið frelsi að sýna á svona stað sem er ekki hefðbundið sýningarrými. Þetta er ekki safn, ekki gallerí, heldur óræður staður sem býður upp á öðruvísi möguleika og nálgun.“

Sigurður segir að það hafi breytt heilmiklu fyrir sig vera fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum. „Það var mikill heiður að sýna þar og svo opnast sýningatækifæri hér og þar vegna þess. Í haust verður Feneyjaverkið mitt, „Ævarandi hreyfing“, sett upp í Peking í glænýju safni sem heitir 798CUBE Museum sem verður spennandi að fylgja eftir.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir