50 ára Ragnar er Reykvíkingur og ólst upp í Breiðholti, fyrstu árin í Írabakka en í síðan í Austurbergi. Hann býr núna í Árbæ. „Það er eini staðurinn sem ég gat fundið sem er með nægjanlega gott útsýni yfir Breiðholtið

50 ára Ragnar er Reykvíkingur og ólst upp í Breiðholti, fyrstu árin í Írabakka en í síðan í Austurbergi. Hann býr núna í Árbæ. „Það er eini staðurinn sem ég gat fundið sem er með nægjanlega gott útsýni yfir Breiðholtið. Það gerist ekki mikið fallegra útsýnið ef þú býrð ekki þar.“

Hann starfaði í tæp 25 ár í hjólreiðaversluninni Erninum, síðast sem sölustjóri en hefur verið formaður VR frá 2017.

Áhugamál Ragnars eru hreyfing ýmiss konar og fjölskyldan. Hann stundar hjólreiðar og fjallaskíði. „Það er alltaf eitthvað sem maður finnur sér að gera. Ég er að fara að taka þátt í Team Rynkeby, erum að safna fyrir langveik börn og ætlum að hjóla frá Danmörku til Parísar í byrjun júlí. VIð hjónin erum að fara í þriðja skiptið. Þetta eru 1300 kílómetrar sem við hjólum á réttri viku.

Svo er ég alltaf að grúska í músíkinni og er í hljómsveit. Ég hef verið að spila frá unglingsaldri og var í fyrstu rapphljómsveitinni á Íslandi, allavega samkvæmt rokksögunni hjá Dr. Gunna. Síðan var ég að tromma í nokkrum böndum á mínum yngri árum. Hætti þegar ég var 25 ára en byrjaði svo aftur fyrir nokkrum árum og er núna í hljómsveitinni Fjöllum.“ Hljómsveitin gaf út sitt fyrsta lag daginn sem Ragnar var endurkjörinn formaður og von er á næsta lagi seinna í þessum mánuði.


Fjölskylda Eiginkona Ragnars er Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, f. 1980, grunnskólakennari og foreldrafræðari, vinnur hjá SKAM. Börn Ragnars eru Daði Mar, f. 2000, Daníel Dúi, f. 2004, og Sóley Dís, f. 2009 og börn Guðbjargar eru Logi, f. 2008, og Emma Lísa, f. 2012. Foreldrar Ragnars: Hjónin Ingólfur Jónsson, f. 1950, vann m.a. hjá Ölgerðinni og Búr, búsettur í Reykjavík, og Dagný Guðmundsdóttir, f. 1951, d. 2018, sjúkraliði á Barnaspítala Hringsins.