Slökkviliðið Viðbragðsaðilar tóku þátt í flugslysaæfingu með nýju flugvélarlíkani á Bíldudal nú í lok apríl.
Slökkviliðið Viðbragðsaðilar tóku þátt í flugslysaæfingu með nýju flugvélarlíkani á Bíldudal nú í lok apríl. — Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr „eldfugl“ hefur verið tekinn í notkun hjá Isavia og ferðast nú á milli landshluta. Um er að ræða færanlegt flugvélarlíkan sem notað er til þjálfunar í slökkvi- og björgunarstörfum. Eldfuglinn er sérsmíðaður og hefur fengið heitið Ladybird eða Maríubjallan á íslensku

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

Nýr „eldfugl“ hefur verið tekinn í notkun hjá Isavia og ferðast nú á milli landshluta. Um er að ræða færanlegt flugvélarlíkan sem notað er til þjálfunar í slökkvi- og björgunarstörfum. Eldfuglinn er sérsmíðaður og hefur fengið heitið Ladybird eða Maríubjallan á íslensku. Þykir líkanið minna á bjölluna.

Eldfuglinn nýi, sem framleiddur er í Bretlandi, gengur fyrir fljótandi gasi í stað olíu. Hann er því umhverfisvænni en þau tæki sem Isavia hefur verið með í notkun hingað til. Friðfinnur Guðmundsson, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, segir tilkomu eldfuglsins vera lið í umhverfisáætlun fyrirtækisins og minnka kolefnissporið.

Hægt er að búa til ýmsar sviðsmyndir til æfingar með eldfuglinum. Mikill viðbúnaður er við hverja æfingu, segir Friðfinnur, og eru allir viðbragðsaðilar á svæðinu virkjaðir. Þá eru leikarar með á æfingunum og bregða þeir sér í hlutverk farþega og jafnvel áhafnar.

Fyrsta flugslysaæfingin með eldfuglinum fór fram á Vopnafjarðarflugvelli þann 22. apríl síðastliðinn. Þá fór fram önnur æfing á Bíldudal viku síðar. Tvær aðrar flugslysaæfingar eru fyrirhugaðar á þessu ári og fara þær fram á flugvöllunum á Húsavík og Egilsstöðum.

Friðfinnur segir æfingar hafa gengið vel. Þá sé mikill kostur að hægt sé að ferðast með eldfuglinn á milli landshluta. „Hingað til hefur fólkið okkar úti á landi þurft að koma til Keflavíkur á æfingar með tilheyrandi kostnaði. Nú getum við farið með æfingarnar til þeirra og fólki gefst þá líka tækifæri til þess að æfa í sínu umhverfi.“

Ætlunin er að nota eldfuglinn á æfingum á öllum flugvöllum landsins, segir Friðfinnur.

Höf.: Snædís Björnsdóttir