Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir alveg „mega færa rök fyrir því að vextir hefðu mátt vera hærri lengur en þeir hafa verið“. Jafnframt sé „ástæða til að hafa áhyggjur þegar fyrirtæki sem hafa verið í ágætis rekstri byrja að sýna taptölur og launahlutföllin eru að hækka töluvert mikið“.
„Það eru komnar fram vísbendingar í sumum uppgjörum að fyrirtæki ráði illa við þær launahækkanir sem um hefur verið samið. Það er ótvírætt þannig og nú þurfum við aftur að finna góðan jafnvægispunkt. Við þurfum að lesa í aðstæður og bregðast við eftir þörfum. Við höfum lagt megináherslu á að ná aftur jöfnuði í ríkisfjármálum, styðja við lækkun verðbólgunnar og verja viðkvæmu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar meðan hún varir,“ segir Bjarni. Þá segir hann þróun hagvaxtar á mann áhyggjuefni. Þrátt fyrir ágætan hagvöxt undanfarin 3-4 ár sé Ísland lægst meðal OECD-ríkja í þessu efni.