Ragnar Thorarensen
Ragnar Thorarensen
Þjónusta Apple er svo hörmuleg að ég sé mig tilneyddan að vara fólk við því að kaupa Apple-vörur.

Ragnar Thorarensen

Ég keypti nýjan ipad 2. maí sl. hjá Epli á Laugaveginum og vissi ekki að þá ætti ég eftir að lenda í þvílíkum hremmingum að það hálfa væri nóg. Ég sé mig því knúinn til að vara fólk við því að kaupa tæki frá Apple, því ef þú lendir í því að aðganginum að apple-reikningnum sé lokað getur Epli á Laugaveginum ekkert gert fyrir þig og hjá Apple Support þarftu e.t.v. að fara í marga hringi án nokkurrar niðurstöðu. Hjá mér snýst málið um það að ég er með tvo apple-reikninga (Apple ID). Fyrri reikningurinn er greinilega tengdur ýmsum öppum og þar lenti ég í því að hafa slegið nýtt lykilorði nógu oft vitlaust inn og reikningnum var lokað. Auðvitað er gott að reikningi sé lokað ef einhver óprúttinn aðili er að reyna að komast yfir hann, en að endurheimta hann er að mér nú sýnist vonlaust og öll mín apple-tæki ónothæf.

Ég hafði samband við Apple Support og eftir að hafa farið í gegnum allt málið var mér tjáð að ég fengi 8. maí klukkan tvö um nóttina símtal eða skilaboð svo ég gæti opnað reikninginn. Ekki kom símtalið og engin voru skilaboðin. Ég hringdi því aftur í Apple Support og afskaplega vingjarnlegur maður fór með mig aftur í gegnum ferlið. Ég spurði hvort þetta þýddi að ég fengi þá aftur svona „ekki-skilaboð“ en hann sagði svo ekki vera. Ég fengi þau núna í símann og gæti þá strax aftur opnað reikninginn. Ég fæ engin skilaboð í símann en sé að í tölvupóstinum eru komin skilaboð sem segja að skilaboð verði send í ipadinn 23. maí. Þetta var því alveg eins og í fyrra skiptið. Ég er aftur kominn í 10 daga bið.

Ég er auðvitað óhress með þetta og hringi í dag í þriðja sinn í Apple Support og nú segir mér kona að það verði að fara í gegnum allan ferilinn aftur og ég megi ekki nota apple-tækin mín, þ.e. ekki símann, fartölvuna, ipadana eða heimilistölvuna, þangað til þeir sendi mér skilaboðin. Hvers vegna? Jú, þeir sjái það að einhver sé að nota tækin og vita ekki hvort það sé eigandinn eða einhver annar og á meðan er reikningurinn læstur! En ég er með tvö Apple ID; ég verð að nota fartölvuna og símann, segi ég við konuna. Því miður, við getum ekkert gert fyrir þig.

Ég hringi þá í Epli á Laugaveginum og sama svar þar. Þeir geta ekkert gert fyrir mig. Eftir stend ég með laskaða heimilistölvu og ónothæfan nýjan ipad og allt vegna þess að Apple er að vernda mig. Þetta er svo mikið rugl að það hálfa væri nóg. „Computer says no“ hjá Apple. Þar er sjálfvirknivæðingin greinilega svo mikil að enginn getur gert neitt fyrir neinn. Ég vil því vara fólk við því að kaupa apple-tæki. Þjónustan er gjörsamlega óboðleg.

Höfundur er leiðsögumaður.

Höf.: Ragnar Thorarensen