Joe Biden Bandaríkjaforseti fundaði í gær með leiðtogum beggja flokka á Bandaríkjaþingi í Hvíta húsinu, en tilgangur fundarins var að leita málamiðlana til þess að hægt yrði að hækka skuldaþak Bandaríkjanna.
Demókratar og repúblikanar hafa sakað hvorir aðra um að fljóta sofandi að feigðarósi, en fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur varað við „geigvænlegum“ afleiðingum fái bandaríska alríkið ekki svigrúm til þess að borga skuldir sínar. Gæti það meðal annars leitt til þess að alríkisstarfsmenn fái ekki greidd laun eða eftirlaun. Þá gæti slíkt „skuldafall“ leitt til mikillar hækkunar á vöxtum, en ráðuneytið segir að fyrirtæki og fasteignaeigendur myndu finna fljótt fyrir áhrifum hennar, sem og fjármálamarkaðir víða um veröld.
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í fyrradag að miðað við núverandi gögn stefndi í að alríkið gæti lent í greiðsluþroti þegar við næstu mánaðamót nema skuldaþakið verði hækkað.
Ekki þótti líklegt að mikill árangur myndi hljótast af fundi Bidens með leiðtogum repúblikana, en þeir fara nú með meirihlutann í fulltrúadeildinni, sem þarf að samþykkja öll fjárútlát alríkisins. Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í deildinni, sagði að lausn þyrfti að finnast á málinu fyrir helgi ef tryggja ætti að það gæti farið í gegnum báðar deildir Bandaríkjaþings í tæka tíð, en repúblikanar vilja að forsetinn samþykki víðtækan niðurskurð á útgjöldum ríkisins.
Biden sagði hins vegar fyrir viðræðurnar að ábyrgðin lægi hjá repúblikönum. „Ef repúblikanar í fulltrúadeildinni ýta okkur í greiðslufall gætu 8 milljónir starfa glatast,“ sagði forsetinn á Twitter. Þykir líklegt að þingmenn muni þurfa að fresta fyrirhuguðu sumarfríi sínu í lok maímánaðar vegna málsins, auk þess sem Biden kann að hætta við ferð til ríkja Asíu.