Sighvatur Björgvinsson
Meira en skiljanlegt er að fólk vilji varast eins og kostur er að hvalveiðar séu stundaðar með þeim hætti að ekki sé hægt að taka dýrin af lífi jafn skjótt og væru þau leidd í sláturhús. Þannig er það einfaldlega. Auðvitað væri ákjósanlegast að skjóta bara eitt skot – og dýrið dautt. Þannig sefast samviskan best. Dauðastríðið stutt – og dauðinn vís. Þannig vill gott fólk að verki sé staðið. En fátt gott fólk skýtur víst hvali!
Laxveiðar góða fólksins
Gott fólk stundar hins vegar laxveiðar. Þar bítur laxinn á flugu, spún eða maðk. Berst svo fyrir lífi sínu og svona tuttugu upp í fjörutíu mínútur – jafnvel lengur. Eyðir til þess öllu sínu þreki og allri sinni orku. Flýr frá veiðistað til veiðistaðar niður og upp árnar með krókinn í kjaftinum uns þrekið loksins þrýtur. Uppgefinn lætur laxinn svo hinn góða veiðimann draga sig að landi. Þar er hann tekinn – ýmist skorinn á háls eða honum bara sleppt. Það vill gott fólk allra helst. Svo góðir veiðimenn geti endurtekið leikinn. Sami laxinn orðið bráð fyrir annan góðan veiðimann. Þjáðst aftur. Misst aftur alla sína lífsorku. Kvalist aftur.
Loðnuveiðar góða fólksins
Ekki nóg með það. Eru ekki góðir menn að takast á við aðrar nytjaskepnur sjávar en bara hvali? Jú vissulega. Til dæmis loðnu. Sækjast til þess að taka úr henni fósturvísana fyrir góða útlendinga að éta. Dauða skrokkana líka. Svo ná megi þeim markmiðum eru hjarðir af loðnu fangaðar í nót. Þrengt þar að þeim með samdrætti veiðarfæris þar sem beitt er sömu aðferðum og ef góða fólkinu væri safnað saman í stöðugt þrengri hjarðir einfaldlega til þess að takmarka aðgengi þess að súrefni loftsins sem í tilfelli loðnunnar er súrefni hafsins. Þrengt meira og meira að hjörðinni, takmarkað lífsgetuna meira og meira uns markinu er náð. Loðnan kæfð til dauða við skipshlið eða um borð – og fósturvísana hægt að éta.
Hreindýraveiðar góða fólksins
Og hvað um góða fólkið, sem heldur á hreindýraveiðar á Íslandi. Er þar ekki allt með besta lagi? Öll dýr snardrepin hratt og fljótt? Engin þjáning – svo gott fólk geti étið sátt. Mjólkandi hreindýrskúm slátrað. Á örskotsstundu. Sveltandi kálfarnir tóra áfram. Deyja svo úr hungri. Nema hvað? Ekki drepnir af góðu fólki. Deyja samt!
Dýravernd er nauðsyn
Nei. Dýravernd er nauðsyn. Góður dauði dýrs fyrir gott fólk. Svo gott geti verið að éta! Gott geti verið að tjá sig! Gott geti verið að varðveita eigin gæði!
Höfundur er fv. alþingismaður og var alinn upp við smáhvalaveiðar.