Bogi Sigurðsson skrifaði mér á föstudag: „Mér finnst við hæfi að rifja upp vísu frá Ástvaldi Magnússyni fyrrverandi bankastarfsmanni, söngfélaga Leikbræðra og fleiri hópa: Verðbólgan engu eirir ein er sú reglan viss

Bogi Sigurðsson skrifaði mér á föstudag: „Mér finnst við hæfi að rifja upp vísu frá Ástvaldi Magnússyni fyrrverandi bankastarfsmanni, söngfélaga Leikbræðra og fleiri hópa:

Verðbólgan engu eirir

ein er sú reglan viss.

En græddur er geymdur eyrir

ef geymslan er útí Sviss.

- ég held ég fari rétt með, annars verður það leiðrétt.“

Davíð Hjálmar Haraldsson segir á Boðnarmiði, að ekki sé skilyrði að limra sé algjör steypa en það sé kostur:

Sem klárinn við hestastein harðbundinn

og hlynurinn – Acer – við garð bundinn

fær kona illa gift

ekki giftingu rift

sé hún fornleifafræðingur jarðbundinn.

Gunnar J. Straumland skrifar á mæðradaginn:

Dvel ég við á degi mæðra

dásamleika æskunnar.

Í minningum er öllu æðra

umhyggjan sem gefin var.

„Heimkoman“ eftir Ólaf Stefánsson:

Að komumst heil til KEF er ljóst,

þótt Kári ýfði fjöður.

Á Tene kul með kyljugjóst.

Við kletta brim og löður.

Ættarjörðin ern úr sæ

út við sjónhring birtist.

Sýnin öll með sama blæ,

og síðast, – að mér virtist.

Hallmundur Guðmundsson yrkir „Sumarljóð“:

Í dag fellur á snoppu snær.

Snævi þakin hlíðin.

Veðrið nokkuð gott í gær.

Giska lítil hríðin.

Og áfram er ort um veðrið. Gunnar Hólm Hjálmarsson:

Þó veturinn lengist og vindur sig belgi

og vatnsgusur skvettist í botnlausa svelgi

Þetta er nú svona

en það ætla að vona

að sumarið hitti á helgi.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson:

Úti grenjar rok og regn,

rennur ljúft um götur.

Á Tene skóm því tölti gegn,

tald' í milljón fötur.

Bragi Sveinsson frá Flögu kvað:

Dagur bjartur gekk um garð,

glataði skarti sínu.

Nóttin svarta nöpur varð,

næddi að hjarta mínu.