Mótlæti fyrir Úkraínu en ekki endilega kaflaskil

Það er margtuggið og þó aldrei of oft sagt að „sannleikurinn falli fyrstur alls í styrjöldum.“ Það á sannarlega við í því stríði sem nú stendur.

Upplýsingastríðið er að sönnu mikilvægur hluti allra átaka, og getur hreinlega ráðið úrslitum um úthald þeirra sem eigast við. Í þeirri styrjöld sem nú geisar í Evrópu fullyrða talsmenn á víxl um mannfall í röðum óvinarins. Þær „upplýsingar“ stangast mjög á við mannfall „í eigin ranni“. Sama gildir um almennan „árangur“ sem andstæðar fylkingar segjast ná.

En stríðsaðilar gæta sín þó á að ljúga ekki til um það sem auðvelt er að hrekja, því slíkt hefnir sín. Þess vegna er ekki öruggt að nýjustu staðhæfingar Rússa séu endilega rangar. Varnarmálaráðuneyti þeirra fullyrðir nú að tekist hafi að eyða einu af hinum fullkomnu Patriot-varnarkerfum sem Úkraína hefur upp á síðkastið fengið frá Bandaríkjunum. Séu þessar fullyrðingar Rússa réttar er áfall Úkraínu verulegt.

Kremlarmenn segja að hinar fullkomnu Kinzhal-flaugar sem fara á margföldum hljóðhraða, hafi unnið þetta afrek í einni mestu eldflaugaárás á höfuðborgarsvæðið til þessa. Úkraína vísar þessum fullyrðingum hins vegar á bug. Rússar vísa til myndbands sem sýni 20 loftvarnaflaugar sem skotið er á loft í Kænugarði á aðeins tveimur mínútum! Hver flaug er sögð kosta um 500 milljónir króna! (Aðeins þrjár flaugar kosta meira en færanlega sjúkrahúsið sem Ísland hefur ákveðið að gefa Úkraínu.) Myndbandinu lýkur með sprengingu, sem túlkendur, velviljaðir Moskvu, segja að sé endalok Patriot-kerfis sem Úkraína fékk fyrir skömmu frá Bandaríkjamönnum.

Daily Telegraph birtir fréttina á forsíðu sinni en segist þó ekki geta staðfest sannleiksgildi hennar. Þar kemur einnig fram að Patriot-kerfið kosti 1,1 milljarð bandaríkjadala, eða um 150 milljarða króna.