Rannsókn James Comer bendir sterklega til þess að maðkur sé í mysunni hjá Biden-fjölskyldunni.
Rannsókn James Comer bendir sterklega til þess að maðkur sé í mysunni hjá Biden-fjölskyldunni. — AFP/Brendan Smialowski
Það var tæp vika til jóla árið 1972 þegar Neilia Biden raðaði börnum sínum þremur í fjölskyldubílinn og ók af stað. Elstur var Beau, þriggja ára, Hunter miðjubarnið tveggja ára og litla Naomi var ekki nema eins árs

Það var tæp vika til jóla árið 1972 þegar Neilia Biden raðaði börnum sínum þremur í fjölskyldubílinn og ók af stað. Elstur var Beau, þriggja ára, Hunter miðjubarnið tveggja ára og litla Naomi var ekki nema eins árs. Framtíðin virtist björt
fyrir þessa glæsilegu ljóshærðu konu, sem hafði fagnað þrítugsafmælinu þá um sumarið. Hún hafði staðið dyggilega við hlið mannsins síns í gegnum nýafstaðna kosningabaráttu og styttist í að hann tæki sæti á þingi.

Rannsókn lögreglu á slysstað leiddi í ljós að skyggnið hafi sennilega ekki verið nógu gott á vegarkaflanum þar sem Neilia ók í veg fyrir stóran vöruflutningabíl. Í fréttum af slysinu kemur ekki fram hvar börnin sátu, en myndir sýna að höggið kramdi saman alla vinstri hliðina á bíl fjölskyldunnar.

Neilia og Naomi voru úrskurðaðar látnar við komu á spítala. Beau og Hunter lifðu áreksturinn af en voru báðir alvarlega slasaðir, og hafði Hunter höfuðkúpubrotnað.

Tveimur vikum síðar fékk Joe Biden að sverja embættiseið á spítalanum til að þurfa ekki að víkja frá sonum sínum tveimur. Sat hann á þingi fyrir Delaware allt þar til Barack Obama bað hann um að gerast varaforsetaefni sitt í kosningunum 2008.

Er varla annað hægt en að kenna í brjósti um Hunter Biden. Ekki er nóg með að bílslysið og móðurmissirinn hljóti að hafa markað djúp spor í sálina, heldur hefur það örugglega líka verið erfitt að vera sonur áberandi stjórnmálamanns. Geta lesendur rétt ímyndað sér hvernig álag það hefur verið á Hunter, sem þá var 17 ára gamall, þegar Joe gerði atlögu að því að vera valinn fulltrúi demókrata í forsetakosningunum 1988. Eins og glöggir lesendur muna hrökklaðist Joe úr slagnum þegar hann varð uppvís að því að hafa fengið að láni kafla úr ræðu breska þingmannsins Neil Kinnock.

Börn hafa orðið skrítin í hausnum af minna tilefni.

Há laun fyrir litla vinnu

Fyrir óbreyttan íslenskan blaðamann er erfitt að segja til um það með vissu hversu miklum mannkostum Hunter Biden er gæddur. Hann hefur útlitið með sér, rétt eins og faðir hans og móðir, og eftir að hafa lokið BA-gráðu frá Georgetown-háskóla komst hann inn í Yale og lauk þar laganámi árið 1996 svo hann hlýtur að hafa ágætis námsgáfur. Hins vegar hefur Hunter lengi glímt við fíknivanda og misnotað bæði áfengi og hörð vímuefni. Honum hefur tekist að vera edrú með hléum, en í dýpstu lægðunum hefur hann sokkið ofan í mjög sóðalegt líferni og lent í slæmum félagsskap.

Það er líka erfitt að segja til um að hve miklu marki Hunter Biden hefur staðið á eigin fótum, eða hvort það hafi kannski fleytt honum í gegnum lífið að vera einfaldlega með rétta ættarnafnið. Fyrsta starfið sem Hunter fékk að laganámi loknu var hjá fjármálafyrirtæki sem hafði látið háar fjárhæðir af hendi rakna til kosningasjóðs Joe gamla. Þaðan fór hann yfir til viðskiptaráðuneytisins, í forsetatíð Clintons, og því næst gekk hann til liðs við lobbíistastofu.

Síðan þá hefur Hunter komið víða við, en þegar ferilskráin er skoðuð er oft snúið að sjá nákvæmlega hvað það er sem hann hefur haft fram að færa í hinum ýmsu störfum sínum. Þannig var Hunter, eins og þekkt er, fenginn til að sitja í stjórn úkraínska orkufyrirtækisins Burisma, þrátt fyrir að hafa enga sérþekkingu eða reynslu sem ætti að gera hann sérstaklega hæfan til starfsins. Fékk Hunter eina milljón dala á ári fyrir stjórnarsetuna, sem er óvenju há upphæð.

Hefur verið reynt að tengja störf Hunters hjá Burisma við heimsókn Joe Biden til Kænugarðs árið 2015 þar sem hann – sem varaforseti – þrýsti á stjórnvöld að láta ríkissaksóknarann Viktor Sokin taka pokann sinn, en Sokin var þá að rannsaka starfsemi Burisma og hafði fyrirtækið m.a. verið bendlað við mútugreiðslur. Var Sokin fljótlega bolað úr embætti og rannsókninni á Burisma hætt skömmu síðar. Þykir ekki síður athyglivert að tveimur mánuðum eftir að varaforsetatíð Joe Biden lauk barst Hunter skeyti frá Burisma um að laun hans fyrir stjórnarsetuna yrðu lækkuð um helming. Var engin frekari skýring gefin á þessari breytingu.

Walter Shaub, sem stýrði á sínum tíma opinberri stofnun sem hefur eftirlit með hagsmunaárekstrum og misferli í bandarískum stjórnmálum, komst svona að orði: „Skyldmenni kjörinna fulltrúa eru almennir borgarar, og það kemur okkur varla við hvort þau hagnast á störfum sínum. En því miður er margt sem bendir til að Hunter Biden hafi það sem sitt aðalstarf að vera sonur Joe Biden.“

10 milljónir dala fyrir hvað?

Nú er Hunter Biden aftur í sviðsljósinu, og hugsanlegt að það kunni að stórskaða vonir Joe Biden um að ná endurkjöri í næstu forsetakosningum. James Comer, formaður eftirlitsnefndar Bandaríkjaþings, boðaði til blaðamannafundar í síðustu viku þar sem hann greindi frá niðurstöðum rannsóknar sem leiddi í ljós undarleg viðskiptasambönd meðlima Biden-fjölskyldunnar við vafasama aðila í Kína og Rúmeníu.

Hefur eftirlitsnefndin leitt í ljós að níu skyldmennum Joe Biden, hið minnsta, bárust greiðslur að upphæð rúmlega 10 milljónir dala á meðan hann var varaforseti, og vekur athygli að greiðslurnar voru sendar í gegnum flókið net skúffufyrirtækja, stundum háar fjárhæðir og stundum lágar. Virðast um það bil tuttugu skúffufyrirtæki hafa verið stofnuð til að miðla greiðslum hingað og þangað, annaðhvort til að reyna að fela uppruna og eðli greiðslanna eða leyna þeim fyrir skattayfirvöldum.

Talsmenn Hvíta hússins segja ásakanir Comers algjöran þvætting. Þá virðast margir bandarískir fjölmiðlar hafa slegið skjaldborg utan um forsetann og segja Comer hafa slegið feilhögg því hann hafi ekki fært sönnur á að greiðslurnar hafi með einhverju móti haft áhrif á störf og skyldur Joe Biden.

Hins vegar hefur heldur ekkert komið fram undanfarna viku sem gæti skýrt greiðslurnar. Ætti ekki að vera mikill vandi fyrir Hunter Biden, sem virðist hafa verið í aðalhlutverki í þessari fléttu, að framvísa reikningum sem sýna nákvæmlega fyrir hvað var verið að greiða. Hvernig stendur t.d. á greiðslum til félaga í eigu James Biden, bróður forsetans? Og af hverju rötuðu sumir peningarnir inn á reikninga í eigu barna og barnabarna forsetans og bróður hans?

Wall Street Journal birti ritstjórnarpistil um málið og bendir á að meðlimir Biden-fjölskyldunnar hafi vissulega fullan rétt á að sjá sér farborða, en það sé ekki óeðlilegt að álykta sem svo að þau gögn sem Comer hefur grafið upp sýni að áhrifamiklir og fjársterkir erlendir aðilar voru að greiða fyrir aðgang að Joe Biden. Segir WSJ að jafnvel þó að ekki hafi tekist að sýna fram á það, svart á hvítu, að lög hafi verið brotin þá kalli gögnin í málinu svo sannarlega á nánari rannsókn.

Sjálfur kveðst Comer þess fullviss að Joe Biden hafi vitað upp á hár hvað sonur hans og aðrir fjölskyldumeðlimir voru að brasa, og að í ljósi þess hve háar upphæðir voru í spilinu sé erfitt að trúa fullyrðingum Bidens um að hann hafi ekki haft nokkra vitneskju um hvað var á seyði.

„Ég held að almenningur í Bandaríkjunum sjái að það er skítalykt af þessu,“ sagði Comer.