Halldór S. Magnússon
Almennt virðast Íslendingar sammála um að verðbólga sé nú mesta hættan sem að þjóðinni steðjar. Samtök vinnandi fólks, samtök vinnuveitenda, Seðlabanki, ríkisstjórn, fræðimenn á sviði efnahagsmála og allur almenningur virðast sammála. Það ætti því að vera sjálfgefið að allir hópar sameinist í baráttu gegn verðbólgu, hver með þeim vopnum sem hann ræður yfir.
Seðlabankinn hefur um nokkurt skeið beitt sínu helsta úrræði og á sama tíma skorað á ríkisstjórnina að veita liðsinni sitt. Viðbrögð hafa því miður valdið vonbrigðum. Aðgerðir stjórnarinnar hafa að mestu leyti falist í aðgerðum sem kynda undir verðbólgu í stað þess að draga úr henni, eins og sést best í framkvæmdaáætlun næstu ára. Fleiri og fleiri láta óánægju sína í ljós, bæði andstæðingar og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. Þar á meðal ýmsir stjórnarþingmenn.
Sérstaka athygli vekur klausa í Staksteinum Morgunblaðsins þar sem vakin er athygli á því að ríkisumsvif hafi blásið út óeðlilega mikið á tíma núverandi ríkisstjórnar. Þetta minnir á gamalt kosningaslagorð Sjálfstæðisflokksins: „Báknið burt“. Þá var reyndar vinstristjórn við völd, enda fullyrt að aðeins vinstristjórnir sóuðu almannafé.
Hinn 9. maí lagði sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fram hugmyndir sínar um nauðsynlegar aðgerðir sem ríkisstjórn Íslands þyrfti að grípa til. Þar má m.a. lesa: „Auka þurfi aðhald í efnahagsstjórninni en samtímis verja stöðu þeirra sem lakast standa.“ Frekari tillögur sendinefndarinnar eru mjög í takt við hugmyndir sem sérfræðingar í ríkisfjármálum hafa sett fram.
Ríkisstjórnin á nú tvo kosti. Annar er að taka mið af tillögum um verulegan samdrátt ríkisútgjalda samhliða því að auka tekjur ríkisins. Hinn kosturinn er að stinga höfðinu í sandinn og neita staðreyndum.
Við bíðum öll niðurstöðu. Þorir ríkisstjórnin eða ekki?
Höfundur er viðskiptafræðingur á eftirlaunum.