Bílar Talsmaður FÍB gagnrýnir að nýja bensínblandan hafi verið sett á markað án kynningar.
Bílar Talsmaður FÍB gagnrýnir að nýja bensínblandan hafi verið sett á markað án kynningar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gagnrýnir hvernig nýju bensínblöndunni, E-10, hefur verið dembt inn á markaðinn án nokkurrar kynningar. Olíufélögin hafi byrjað að selja þessa nýju vöru fyrir um mánuði, nánast í skjóli myrkurs

sviðsljós

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gagnrýnir hvernig nýju bensínblöndunni, E-10, hefur verið dembt inn á markaðinn án nokkurrar kynningar. Olíufélögin hafi byrjað að selja þessa nýju vöru fyrir um mánuði, nánast í skjóli myrkurs. Engin opinber stofnun hafi sinnt því hlutverki að upplýsa eigendur bifreiða um að von væri á þessu og hvaða áhrif breytingin kynni að hafa.

Olíufélögin hófu í apríl að flytja inn og selja 95 oktana bensín, svokallaða E-10-blöndu, sem kemur í stað E-5-bensínsins sem hér hefur verið á markaði undanfarin ár. Upplýsingar til neytenda hafa verið af skornum skammti og enn er ekki búið að merkja bensíntanka á afgreiðslustöðvum með merki E-10-blöndunnar. Neytendur vita því ekki hvar er verið að selja E-10 og hvar er enn verið að selja E-5.

Birta upplýsingar á vefnum

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, gefur lítið fyrir þá skýringu sumra olíufélaganna að þau hafi orðið að kaupa þessa blöndu frá birginum í Noregi vegna þess að Norðmenn hefðu innleitt hana hjá sér og annað væri ekki í boði. Hann kallar þetta aulaskýringu og segir að aðdragandinn hljóti að hafa verið meiri í ljósi þess að íslensku olíufélögin hafi lengi átt í viðskiptasambandi við þennan birgi. Upplýsingagjöf hafi verið með allt öðrum hætti þegar sambærilegar breytingar hafi verið gerðar á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Runólfur saknar einnig þess að opinberar stofnanir sem eigi að gæta hagsmuna neytenda hafi ekki látið málið til sín taka og upplýst bíleigendur um breytinguna og áhrif hennar. Segist hann raunar ekki vita hvaða stofnun hafi hlutverk í þessu efni en telur Neytendastofu líklegasta.

FÍB hafi til dæmis ekki fengið neina kynningu á breytingunni þótt samtökin séu opinberlega viðurkennd sem hagsmunasamtök 20 þúsund bíleigenda. „Við gerum okkur grein fyrir því að þetta hefur ýmsa kosti sem ekki er hægt að mæla á móti. En það þarf að vera eðlilegur aðdragandi að breytingunni, eins og til dæmis þegar hætt var að selja blýbensín á sínum tíma. Núna gerist þetta í myrkri og nýtt eldsneyti allt í einu komið,“ segir Runólfur.

FÍB er að afla sér upplýsinga um áhrif E-10-bensíns á eldri bíla, nákvæmari upplýsinga en olíufélögin hafa birt. Upplýsingarnar verða birtar á vef FÍB í dag.

Eigendur gamalla bíla sem ekki þola E-10 geta yfirleitt bjargað sér með því að nota hreint 98 oktana bensín. Það er hins vegar ekki í boði nema á fáum stöðum á landinu. Runólfur segir að í öðrum löndum sem innleitt hafi þessar blöndur séu yfirleitt fleiri valkostir á bensínstöðvum, nær íbúunum.

Spurður að því hvort nýja blandan ætti að vera dýrari eða ódýrari en sú gamla segir Runólfur að í fljótu bragði séð ætti þetta bensín að vera ódýrara, það er að segja ef olíufélögin noti ekki tækifærið til að hækka álagningu. Það byggist á því að íblöndunarefnið, etanól, ber ekki vörugjöld eða kolefnisgjöld. Á móti kemur að bílar sem nota E-10 eyða um 1,8% meira af eldsneyti og telur Runólfur að kostnaður bíleigandans ætti að vera svipaður.

Höf.: Helgi Bjarnason