Ráðherra Þórdís Kolbrún.
Ráðherra Þórdís Kolbrún. — Morgunblaðið/Eggert
„Ég er mjög spennt og ánægð með á hvaða stað við erum,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, fyrir setningu leiðtogafundar þess í Hörpu gær

„Ég er mjög spennt og ánægð með á hvaða stað við erum,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, fyrir setningu leiðtogafundar þess í Hörpu gær. Nokkru síðar tóku fyrstu gestirnir að streyma til fundarins, á fjórða tug þjóðhöfðingja og fjöldi háttsettra embættismanna.

„Það er yfirlýsing í sjálfu sér að þessir þjóðarleiðtogar forgangsraði tíma sínum og mæti til Reykjavíkur.“ Stríðið í Úkraínu var í forgrunni og utanríkisráðherra er þess fullviss að leiðtogafundurinn verði árangursríkur og farsæl niðurstaða fáist.

„Ég vona auðvitað að það verði sátt um Reykjavíkuryfirlýsinguna, hún tekur á mörgum mikilvægum málum og myndi fela í sér mikla pólitíska skuldbindingu.“ Þórdís nefnir einkum gerð tjónaskrár yfir það tjón sem Rússar hafa valdið úkraínsku þjóðinni. Um sé að ræða gríðarlega stórt verkefni. „Þátttaka í því er framar mínum björtustu vonum. Við erum til að mynda með öll G7-ríkin þar inni, ekki bara aðildarríki Evrópuráðsins heldur líka stór ríki utan Evrópuráðsins, sem gerir okkur kleift að útbúa skrána og greiða fólki bætur fyrir það tjón sem það hefur orðið fyrir.“

Hún segir að í Reykjavíkuryfirlýsingunni felist pólitísk yfirlýsing um að standa vörð um þau gildi sem Evópuráðið byggi á og vegið sé að með augljósum og hrikalegum hætti í Úkraínu. „Það gætir tilhneigingar til þess víðar í Evrópu.“ Hún segir ákveðið bakslag innan stjórnmálanna og upplýsa þurfi almenning betur um hversu miklu máli skipti að standa vörð um lýðræði, réttarríki og mannréttindi. „Það er besta leiðin til að finna frelsi, hamingju og eiga gott líf. Þetta er sögulegur fundur og ég er þakklát fyrir að Ísland geti lagt þetta af mörkum í því ástandi sem við erum í.“

Lettland tekur í dag formlega við formennsku í Evrópuráðinu af Íslandi. „Það er gott að vita af því að við erum að senda formennskuna til vina okkar,“ segir utanríkisráðherra, en leiðtogafundinum lýkur í dag.