Fundað Einbeitingin var mikil á meðan leiðtogarnir hlýddu hver á annan.
Fundað Einbeitingin var mikil á meðan leiðtogarnir hlýddu hver á annan. — Morgunblaðið/Eggert
Ómögulegt er að reiða sig á frið sem fenginn er án réttlætis, voru skilaboð Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu, í ræðu sem hann hélt á leiðtogafundi Evrópuráðsins í gær. Selenskí ávarpaði fundargesti í gegnum fjarfundabúnað og fagnaði áformum…

Ómögulegt er að reiða sig á frið sem fenginn er án réttlætis, voru skilaboð Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu, í ræðu sem hann hélt á leiðtogafundi Evrópuráðsins í gær. Selenskí ávarpaði fundargesti í gegnum fjarfundabúnað og fagnaði áformum Evrópuráðsins þess efnis að ræða mögu­lega tjóna­skrá vegna stríðsins í Úkraínu. Hann bætti þó við að Úkraína þyrfti betra loftvarnakerfi, fleiri eldflaugar og herþotur.

Vestræn ríki hafa verið hikandi við að veita Úkraínu herþotur, og skýrist það einna helst af ótta við að slík aðstoð myndi ýta enn frekar undir átökin og útbreiðslu þeirra. Selenskí hefur þó tekist að fá loforð um aukna hernaðarlega aðstoð frá Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi á undanförnum dögum, en hann heimsótti leiðtoga framangreindra ríkja í aðdraganda leiðtogafundarins.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, lýstu því yfir á fundinum að þeir myndu efna til milliríkjasamstarfs í þeim tilgangi að útvega Úkraínumönnum flughernaðarlega aðstoð, og í því fælist meðal annars að þjálfa úkraínska herflugmenn á F-16 herþotur og að útvega slíkar þotur.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, lagði áherslu á mikilvægi tjónaskrárinnar, sem hann kvað myndu þjóna „lykilhlutverki“ í því að „refsa og draga til ábyrgðar vegna þeirra stríðsglæpa sem framdir hafa verið af Rússum“.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hvatti aðrar þjóðir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að fylla út tjónaskrána og hámarka með því vægi framtaksins.

Bandarískur áheyrnarfulltrúi, sem staddur er á fundinum, lýsti því yfir að Bandaríkin styddu fyrirhugaða tjónaskrá.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lýsti einnig yfir stuðningi sínum við tjónaskrána, sem hún telur til þess fallna að draga úr stríðsglæpum Rússlands til framtíðar. Tók hún í sama streng og Selenskí að „einungis réttlæti geti orðið grundvöllur varanlegs friðar í Úkraínu“.