Garðar Cortes óperusöngvari lést sunnudaginn 14. maí á 83. aldursári. Garðar fæddist í Reykjavík 24. september 1940. Foreldrar hans voru Kristjana Svanberg Jóndóttir Cortes húsmóðir og Axel Cortes, myndfaldari og verslunarmaður

Garðar Cortes óperusöngvari lést sunnudaginn 14. maí á 83. aldursári.

Garðar fæddist í Reykjavík 24. september 1940. Foreldrar hans voru Kristjana Svanberg Jóndóttir Cortes húsmóðir og Axel Cortes, myndfaldari og verslunarmaður.

Garðar hóf söngnám í London árið 1963 og nam þar einnig hljómsveitar- og kórstjórn. Hann lauk prófi frá The Royal Academy of Music árið 1968 og frá Watford School of Music árið eftir.

Eftir heimkomu til Íslands hóf hann tónlistarkennslu við Tónlistarskólann á Seyðisfirði þar sem hann gegndi einnig skólastjórastöðu. Samhliða kennslunni starfaði hann við Þjóðleikhúsið. Garðar flutti til Reykjavíkur í kjölfarið og stjórnaði ýmsum kórum, meðal annars Fóstbræðrum, auk þess sem hann söng með Einsöngvarakórnum, Ljóðakórnum og fleiri kórum.

Garðar stofnaði Söngskólann í Reykjavík 1973 þar sem hann varð skólastjóri frá upphafi. Nutu ýmsir þekktir söngvarar leiðsagnar Garðars við skólann. Á upphafsárum skólans stofnaði Garðar einnig Íslensku óperuna árið 1979 þar sem hann var svo óperustjóri um tveggja áratuga skeið. Eins kom hann Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur á fót um miðjan áttunda áratuginn og stofnaði um svipað leyti Kór Söngskólans sem skipaður var nemendum skólans. Var söngur kórsins gefinn út á nokkrum fjölda hljómplatna en hann varð síðar að Óperukórnum í Reykjavík.

Garðar söng í óperuhúsum víða um lönd, svo sem í Bandaríkjunum, Bretlandi og Skandinavíu og stjórnaði um stund Óperunni í Gautaborg í Svíþjóð. Hljómplötur með rödd hans eru fjöldamargar og má nefna Draum um hvít jól sem tekin var upp árið 2000, þar á meðal á þjóðhátíðardaginn 17. júní, en Suðurlandsskjálftinn þann dag truflaði þá upptökur.

Garðar var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 1990 fyrir störf sín við tónlistina og hlaut Bjartsýnisverðlaun Bröstes fyrir stofnun Íslensku óperunnar á sínum tíma. Þá var hann sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar árið 2017 og hlaut fjölda annarra verðlauna og viðurkenninga.

Garðar Cortes lætur eftir sig fjögur börn og níu barnabörn. Eftirlifandi eiginkona hans er Krystyna Maria Blasiak Cortes.