Vigfús Ásgeirsson er fæddur 17. maí 1948 í Suður-Vík í Mýrdal að morgni annars í hvítasunnu 1948.
„Systir mín Ólöf hafði verið fermd daginn áður og hélt móðir mín fermingarveislu hennar og átti mig síðan nokkrum tímum eftir að búið var að taka til eftir veisluna. Sigga systir mín hafði fengið að sofa í herbergi eldri systra sinna, en það var við hliðina á herbergi pabba og mömmu, heyrði í mér um morguninn og varð ósköp glöð því hún hélt að það væri kominn köttur á heimilið. Það urðu víst mikil vonbrigði þegar í ljós kom að enginn var kötturinn.
Jón Halldórsson, mágur mömmu, bjó í Suður-Vík það sem þá var kallað stórbúi auk þess sem hann var kaupmaður í Halldórsverslun. Mamma hafði staðið fyrir heimilisrekstrinum þar til hún giftist pabba og flutti til Reykjavíkur. En tengslin við Suður-Vík voru aldrei rofin því hún stjórnaði heimilinu öll sumur auk þess sem jól og áramót voru yfirleitt haldin þar.
Pabbi og mamma fluttu úr bænum í Suður-Vík í stríðsbyrjun. Pabbi, sem var ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands, vann sína skrifstofuvinnu þar en á sumrin var hann á ferðalagi um landið. Þau flytja síðan í bæinn haustið 1948 og hlaut ég mína skólagöngu þar. En ég var öll sumur í Suður-Vík, síðast 16 ára gamall.“
Fjölskyldan átti heima í Drápuhlíð og fór Vigfús 7 ára gamall í Eskihlíðarskóla þar sem Ármann Kr. Einarsson rithöfundur kenndi honum í tvö ár. Síðan lá leiðin í Austurbæjarskóla og þar var hann hjá Jakobi Sveinssyni í fjögur ár. „Þessir tveir menn eru mér mjög minnisstæðir, góðir kennarar og algjörir ljúflingar.“
Vigfús var þrjá vetur í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og lauk þaðan landsprófi 1964. Hann lauk síðan stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968, B.S. prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands 1973 og M.S. prófi frá Iowa State University 1977. „Ég var aðeins að gutla í félagsmálum og pólitík á menntaskólaárunum og í byrjun í HÍ. Var forseti Framtíðarinnar í MR 1966-1967, í stjórn Heimdallar 1967-1968 og í stjórn Vöku 1968-1969. Síðan má geta þess að ég er forfallinn Valsari, hélt til á Valsvellinum sem krakki en sumardvalir í Suður-Vík komu í veg fyrir frama í fótbolta.“
Eftir Suður-Vík tóku við ýmis sumarstörf hjá Vigfúsi: aðstoðarmaður við mælingar, verkamannavinna og skrifstofustörf. Hann byrjar síðan að kenna í MH með skóla 1970-1972, er síðan settur kennari og kennir til 1974 þegar hann heldur til náms í Bandaríkjunum. „Þegar ég kem heim frá námi er ég eitthvað að kenna áfram við MH og einnig í HÍ en það endar með því að ég festist í vinnu í tölvudeild Kristjáns Ó. Skagfjörðs og er þar í 13 ár.“
Síðan hóf Vigfús störf hjá Talnakönnun, í ársbyrjun 1991, starfaði þar í rúm 32 ár og lét af störfum í lok apríl sl. „Þar sinnti ég sérfræðistörfum á sviði trygginga og tölfræði, fæ síðan árið 1998 viðurkenningu Vátryggingaeftirlitsins til að sinna verkefnum tryggingastærðfræðings líftryggingafélaga og tryggingafræðilegum athugunum í starfsemi lífeyrissjóða. Aðalstarf mitt var síðan að vera tryggingastærðfræðingur fjölmargra lífeyrissjóða.
Nú verðum við hjónin, þegar hún hættir störfum 1. júlí næstkomandi, frjáls til að sinna áhugamálum. Við höfum hug á að ferðast mikið og jafnvel að dvelja erlendis hluta úr ári. Eins verður tækifæri til að endurvekja stangveiðina og auka skíðaiðkun.“
Fjölskylda
Eiginkona Vigfúsar er Þuríður Vilhjálmsdóttir, f. 12.11. 1956, flugfreyja. Þau eru búsett í Ásahverfi í Garðabæ. Foreldrar Þuríðar voru hjónin Vilhjálmur Þorláksson, f. 27.7. 1933, d. 4.4. 2022, og Lára Hjálmarsdóttir (Lore Else Charlotte Schmidt), f. 4.11. 1933, d. 21.12. 1987.
Fyrri kona Vigfúsar var Sólveig Brynjólfsdóttir, f. 30.8. 1950, d. 17.9. 2002, flugfreyja.
Sonur Vigfúsar með Halldóru Viktorsdóttur, f. 17.2. 1948, er 1) Viktor Jens, f. 20.7. 1967, framkvæmdastjóri, búsettur í Reykjavík. Giftur Ernu Sverrisdóttur, f. 23.8. 1967, kennara. Sonur Viktors og Kristínar Birgittu Gunnarsdóttur, f. 25.2. 1966, er Stefán Andri, f. 17.11. 1991. Sonur Viktors og Ernu er Vésteinn, f. 14.12. 2006. Dætur Vigfúsar með Sólveigu eru 2) Ágústa Þuríður, f. 13.7. 1977, líftækniverkfræðingur, búsett í Seattle, BNA. Gift Jóhannesi Þorsteinssyni, f. 20.10. 1978, framkvæmdastjóra. Börn þeirra eru Sólveig Júlía, f. 8.11. 2005, Karítas Friðný, f. 23.3. 2009 og Alexander Ari, f. 21.6. 2014; 3) Klara Íris, f. 6.3. 1981, starfsmannastjóri, búsett í Garðabæ. Hún býr með Maríu Ágústsdóttur, f. 1.12. 1982. Synir Klöru og fv. eiginmanns, Guðmundar Inga Haukssonar, f. 2.4. 1970, eru Vigfús Ingi, f. 6.1. 2010, Steinar Kári, f. 17.9. 2012 og Sveinn Mar, f. 15.8. 2014.
Synir Þuríðar og fv. eiginmanns Símonar Pálssonar, f. 30.4. 1948, d. 10.12. 2000, eru 1) Vilhjálmur Styrmir, f. 24.9. 1984, grafískur hönnuður í Hamborg. Giftur Juliu Castagnoli, f. 9.11. 1979. Dætur þeirra eru Charlotte Angelika, f. 7.11. 2013 og Carolina Þuríður, f. 5.2. 2018; 2) Sveinn Orri, f. 11.4. 1988, kvikmyndagerðarmaður í Garðabæ. Stjúpdóttir Þuríðar er Jóhanna Símonardóttir, f. 19.10. 1974. Börn hennar og Tómasar Edwardssonar, f. 21.4. 1978, eru Símon, f. 29.4. 2003, Finnur, f. 10.5. 2005 og Anna María, f. 10.12. 2011.
Bræður Vigfúsar samfeðra voru Jón Geir, f. 27.11. 1927, d. 14.2. 2015, Geir Jón, f. 8.6. 1929, d. 3.11. 1980, og Torfi, f. 23.9. 1930, d. 15.5. 2005. Systur Vigfúsar sammæðra: Matthildur, f. 8.7. 1933 og Ólöf, f. 17.10. 1934, d. 2.4. 2005, en faðir þeirra var fyrri eiginmaður móður Vigfúsar, Ólafur Halldórsson, f. 30.4. 1893, d. 16.7. 1934, bóndi og kaupmaður í Suður-Vík. Alsystkini Vigfúsar: Ólafur Ásgeir, f. 3.10. 1938, d. 9.8. 2010, og Sigríður Vigdís, f. 4.10. 1942.
Foreldrar Vigfúsar voru hjónin Ásgeir Lárus Jónsson, f. 2.11. 1894, d. 13.4. 1974, vatnsvirkjafræðingur og ráðunautur, og Ágústa Þuríður Vigfúsdóttir, f. 1.8. 1906, d. 31.10. 1985, húsmóðir.