Anna Höskuldsdóttir fæddist 8. mars 1947. Hún lést 23. apríl 2023.

Útförin fór fram 15. maí 2023.

Elsku góða vinkona mín, Anna Höskuldsdóttir, lést 23. apríl sl. eftir skammvinna baráttu við krabbamein. Við kynntumst þegar við fluttum með fjölskyldurnar okkar í sömu raðhúsalengjuna við Grundargerði á Akureyri, ég tuttugu og tveggja ára og hún þremur árum eldri. Við urðum strax vinkonur og entist sú vinátta alla ævi. Þó að leiðir skildi, jafnvel í einhver ár, þá smullum við saman eins og við hefðum hist í gær.

Ég var að stíga mín fyrstu skref sem sjálfstætt búandi eiginkona og móðir, hún aðeins reyndari. Ég veit ekki hversu oft ég fékk að stinga börnunum mínum inn til hennar í mislangt „pass“, þau segja allavega að það hafi verið oft, og hafa talað um hvað hún var þeim alltaf góð, átti dót að leika með og heimabakað brauð.

Hún var mér endalaust þolinmóð þegar ég leitaði alls konar ráða hvort heldur í blómarækt eða saumaskap. Mér er minnisstæð mynd frá þessum tíma, þar sem við sátum seint að kvöldi og hún var að kenna mér að setja rennilás og vasa í buxur. Ég alveg að gefast upp og sagði „ég get þetta ekki“, en það tók hún ekki í mál og sagði „þú getur þetta víst, þú gerir bara svona“ og svo sátum við bara þangað til mér tókst þetta.

Svo var það blómaræktin. Þar var ég ekki heldur sterk á svellinu, ég er viss um að ég hef fengið hjá henni hundrað „afleggjara“ sem entust mislengi, en enginn mjög lengi. Ég verð aldrei talin „blómakona“, en Anna var það svo sannarlega.

Hennar dýrmætustu stundir átti hún auðvitað með yndislegu og nánu fjölskyldunni sinni. Þar næst komu blómin hennar og vinirnir. Engin var betri vinkona.

Elsku Gylfi, Ármann, Björgvin, tengdadætur og barnabörn, innilegar samúðarkveðjur. Þið áttuð vísan stað í hjarta Önnu. Ég þakka henni fyrir endalausa tryggð og vináttu í 50 ár. Ég kveð hana með söknuði og hlakka til þegar við hittumst í öðru lífi.

Ljúfi Drottinn lýstu mér

svo lífsins veg ég finni.

Láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli Gíslason frá Uppsölum)

Margrét Einarsdóttir.