Flest bendir til þess að víðtækari verkföll BSRB-félaga í sveitarfélögum haldi áfram eftir næstu helgi en fyrstu lotu verkfallsaðgerða sem hófust sl. mánudag lauk á hádegi í gær. Ekki hefur verið talið tilefni til að boða til sáttafundar í kjaradeilunni og er óvíst að af því verði í þessari viku

Flest bendir til þess að víðtækari verkföll BSRB-félaga í sveitarfélögum haldi áfram eftir næstu helgi en fyrstu lotu verkfallsaðgerða sem hófust sl. mánudag lauk á hádegi í gær. Ekki hefur verið talið tilefni til að boða til sáttafundar í kjaradeilunni og er óvíst að af því verði í þessari viku.

Næstkomandi mánudag bætast sex sveitarfélög við þau fjögur sem verkfallsaðgerðir sem þegar hafa verið samþykktar ná til. Á vef BSRB er bent á að þá hefjast einnig verkfallsaðgerðir í sundlaugum, íþróttamannavirkjum og leikskólum í tíu sveitarfélögum til viðbótar á landsbyggðinni um og eftir hvítasunnuhelgina hafi ekki samist fyrir þann tíma. Enn frekari verkfallsaðgerðir eru í undirbúningi hjá BSRB og hófust atkvæðagreiðslur í gær um aðgerðir sem ná til 29 sveitarfélaga.

„Fari atkvæðagreiðslur á þann veg mun bæði lengjast í verkföllunum og bætast við fleira starfsfólk og starfsstöðvar um landið allt, t.a.m. sundlaugar, áhaldahús og bæjarskrifstofur,“ segir um aðgerðirnar á vef BSRB.

LÍ, VFÍ og RSÍ vísa deilum

Fleiri kjaradeilur hafa að undanförnu komið inn á borð ríkissáttasemjara. Efling vísaði fyrir nokkru kjaraviðræðum við samninganefnd ríkisins til ríkissáttasemjara. Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri og aðstoðarsáttasemjari, stýrir þeim viðræðum. Er reiknað með að haldinn verði sáttafundur í kjaradeilunni næstkomandi mánudag.

Þá hefur Læknafélag Íslands vísað viðræðum við samninganefnd ríkisins til ríkissáttasemjara og er sáttafundur boðaður 23. maí. Verkfræðingar hafa vísað deilu við Orkuveitu Reykjavíkur til sáttameðferðar og Rafiðnaðarsamband Íslands hefur vísað kjaradeilu vegna félagsmanna sem starfa hjá Landsneti til ríkissáttasemjara. omfr@mbl.is