Við Tjarnargötu Vel virtist fara á með þeim von der Leyen og Katrínu í Ráðherrabústaðnum í gær.
Við Tjarnargötu Vel virtist fara á með þeim von der Leyen og Katrínu í Ráðherrabústaðnum í gær. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafa rætt um fyrirhugaða löggjöf ESB um losunarheimildir á flugferðir og áhrif þeirra á íslensk flugfélög

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafa rætt um fyrirhugaða löggjöf ESB um losunarheimildir á flugferðir og áhrif þeirra á íslensk flugfélög. Fram kom á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra í gær að tekið verði tillit til séríslenskra aðstæðna og að Ísland muni hljóta undanþágur. Fundur von der Leyen og Katrínar fór fram í Ráðherrabústaðnum í gær. Funduðu þær í 20-30 mínútur og ræddu stuttlega við fjölmiðlafólk að svo búnu.

Spurð um málið, sagði von der Leyen að ESB sýndi Íslendingum skilning í málinu og að sameiginleg lausn hefði fundist, en tók jafnframt fram að málið væri enn í vinnslu og ætti eftir að ræða og útfæra betur. Fram kom að Ísland muni fá, árin 2025 og 2026, auknar heimildir til að losa koltvísýring í flugi.

Katrín tók í svipaðan streng og sagði að ræða þyrfti málið nánar innan ríkisstjórnarinnar og á Alþingi, en ljóst væri að sameiginleg lending hefði náðst þar sem tillit væri tekið til íslenskra aðstæðna. Benti Katrín til að mynda á að von der Leyen hefði komið til Íslands með flugi.

Hældi Íslendingum

Þórdís Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði í samtali við mbl.is í mars að fyrirhuguð löggjöf ESB um losunarheimildir á flugferðir væri stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES-samningsins. Utanríkisþjónustan hefði farið í fordæmalaust átak til að reyna að hafa áhrif á löggjöf ESB.

Ursula von der Leyen sagði Íslendingum hafa tekist vel upp í forystu Evrópuráðsins. Ísland hefur sinnt formennsku í Evrópuráðinu síðasta hálfa árið og lýkur henni í lok leiðtogafundarins sem stendur yfir í Hörpu.

Þakkaði hún Katrínu og Íslendingum fyrir að leggja áherslu á réttlæti fyrir Úkraínumenn í formannstíð Íslendinga í Evrópuráðinu og að beina sjónum að ábyrgð Rússa varðandi það tjón sem orðið hefur í Úkraínu. Rússar séu ábyrgir fyrir því með innrás í nágrannaríki.

Von der Leyen gat þess einnig að Íslendingar hefðu stutt myndarlega við bakið á Úkraínumönnum með alls kyns aðstoð og móttöku flóttamanna sem séu nærri þrjú þúsund talsins.