Magnaður Aron Rafn Eðvarðsson var í miklum ham á lokakaflanum gegn Aftureldingu í gærkvöld og stuðningsfólk Hauka var vel með á nótunum.
Magnaður Aron Rafn Eðvarðsson var í miklum ham á lokakaflanum gegn Aftureldingu í gærkvöld og stuðningsfólk Hauka var vel með á nótunum. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukar komust í gærkvöld í úrslitaeinvígið gegn ÍBV með sigri á Aftureldingu, 23:17, í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta karla. Gríðarleg spenna var fyrir leikinn og var Íþróttamiðstöðin Varmá orðin troðfull löngu áður en leikurinn hófst

Á Varmá

Jón Kristinn Jónsson

jonkr@mbl.is

Haukar komust í gærkvöld í úrslitaeinvígið gegn ÍBV með sigri á Aftureldingu, 23:17, í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta karla. Gríðarleg spenna var fyrir leikinn og var Íþróttamiðstöðin Varmá orðin troðfull löngu áður en leikurinn hófst. Mikil spenna var í húsinu og mátti ekki miklu muna að þakið rifnaði af.

Jafnræði var með liðunum í upphafi en þegar líða tók á hálfleikinn sigu leikmenn Aftureldingar fram úr og komust mest þremur mörkum yfir. Lítið var skorað enda bæði lið taugatrekkt og rög við að skjóta utan af velli. Að sama skapi var varnarleikur beggja liða mjög þéttur.

Það sást vel á liðunum að lítil orka var eftir á tanknum. Fyrri hálfleik lauk með því að Haukum tókst að skora tvö mörk í röð og minnka muninn í 11:10.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri. Mikið jafnræði var með liðunum en Haukar virtust eiga aðeins meiri orku eftir. Liðin skiptust á að skora og var munurinn aldrei meiri en 1-2 mörk alveg þangað til um 10 mínútur voru eftir.

Þá var eins og lið Aftureldingar yrði alveg bensínlaust. Haukar gengu á lagið með Aron Rafn Eðvarðsson í fararbroddi en hann gjörsamlega lokaði markinu í lokin auk þess að skora tvö mörk á lokasprettinum sem nánast gerðu út um leikinn.

Lykillinn að sigri Hauka var klárlega góð markvarsla Arons ásamt því að Haukaliðið býr yfir meiri breidd og reynslu en lið Aftureldingar. Það sýndi sig því Haukar skoruðu sex mörk gegn engu og breyttu stöðunni úr 16:16 í 22:16 og úrslitin voru þar með ráðin á lokamínútunum.

Í liði Hauka skoruðu Andri Már Rúnarsson og Guðmundur Bragi Ástþórsson 5 mörk hvor, líkt og Blær Hinriksson hjá Aftureldingu. Aron Rafn Eðvarðsson varði 14 skot í liði Hauka en Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 9 skot í marki Aftureldingar.

Haukar þurfa nú að nota næstu daga til að safna kröftum gegn vel hvíldu liði ÍBV en liðin mætast á laugardag í Vestmannaeyjum. Eyjamenn unnu sitt einvígi við FH, 3:0, og spiluðu síðast 10. maí. Þeir fá því alls tíu daga undirbúning þangað til úrslitaeinvígið hefst.

Höf.: Jón Kristinn Jónsson