Nýsamþykkt lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, sem eiga uppruna sinn í tveimur Evrópureglugerðum, munu hafa mikil áhrif á fjármálafyrritæki.
Nýsamþykkt lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, sem eiga uppruna sinn í tveimur Evrópureglugerðum, munu hafa mikil áhrif á fjármálafyrritæki. — AFP/Kenzo Tribouillard
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþingi samþykkti í byrjun mánaðar ný lög er lúta að upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar sem taka gildi strax í næsta mánuði. Breytingarnar eru umtalsverðar og að líkindum víðtækari en mörg fyrirtæki gera sér í grein fyrir

Alþingi samþykkti í byrjun mánaðar ný lög er lúta að upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar sem taka gildi strax í næsta mánuði. Breytingarnar eru umtalsverðar og að líkindum víðtækari en mörg fyrirtæki gera sér í grein fyrir. Þrátt fyrir að löggjöfin taki einkum til stórra fyrirtækja og fjármálafyrirtækja, þá mun starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja ekki fara varhluta af regluverkinu.

Fyrir utan regluverkið sjálft, er hér meðal annars stuðst við upplýsingar sem fram komu á fundi Samtaka atvinnulífsins (SA), Ársreikningaskrár, Deloitte og Landsvirkjunar sem fram fór í síðustu viku, auk ítarlegri upplýsinga frá Deloitte.

Koma í veg fyrir grænþvott

Regluverkið á rætur sínar að rekja til svokallaðs Græns sáttmála Evrópusambandsins (ESB), hvers markmið eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Græni sáttmálinn byggir aftur á Parísarsamkomulaginu sem skildar aðildarþjóðir til þess að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum innan 2°C marksins þar sem miðað ver við hitastig fyrir iðnvæðingu.

Regluverkinu er ekki aðeins ætlað að koma í veg fyrir grænþvott, heldur einnig að stýra fjármagni inn í sjálfbærnivegferðina og hafa þannig áhrif á sjálfbærar fjárfestingar þar sem fjármál fyrirtækja og sjálfbærni verða í reynd samofin með þeim hætti að fjárhagslegar ákvarðanir fyrirtækja og fjárfesta taki mið af sjálfbærni í framtíðinni.

Löggjöfin sem samþykkt var á Alþingi nú í byrjun mánaðar byggir á tveimur Evrópureglugerðum, annars vegar Flokkunarreglugerð ESB (e. EU Taxonomy) og hins vegar reglugerð um sjálfbærniupplýsingagjöf á sviði fjármálaþjónustu (e. Sustainable Finance Disclosure Regulation, SFDR).

Flokkunarreglugerð stórra fyrirtækja

Flokkunarreglugerðin tekur til um 300 íslenskra fyrirtækja. Annars vegar eru það fyrirtæki sem uppfylla tvö af þremur eftirfarandi skilyrðum: heildareignir nema minnst þremur milljörðum króna, hrein velta nemur minnst sex milljörðum króna eða ársverk eru fleiri en 250. Hins vegar eru það fyrirtæki sem, alveg óháð fyrri skilyrðum, tengjast almannahagsmunum í skilningi ársreikningalaga.

Um er að ræða einskonar gátlista sem fyrirtæki og fjárfestar geta stuðst við til að ákvarða hvort starfsemi fyrirtækja samræmist umhverfismarkmiðum ESB og er þar meðal annars horft til þess hversu sjálfbær rekstur fyrirtækja er í raun út frá veltu, fjárfestingarútgjöldum og rekstrarkostnaði. Til að starfsemi teljist umhverfislega sjálfbær þarf hún að falla undir minnst eitt af sex umhverfismarkmiðum reglugerðarinnar án þess að skaða önnur markmið, auk þess sem starfsemin skal vera í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir (e. minimum safeguards) sem mælt er fyrir

Með flokkunarreglugerðinni er ætlunin að staðla sjálfbærni fyrirtækja með því að skylda þau til að flokka í fyrsta lagi hvaða hluti af starfsemi þeirra er innan gildissviðs regluverksins, og í öðru lagi að skilgreina hvaða tekjur, fjárfestingarútgjöld og rekstrarkostnaður fyrirtækisins samræmist sjálfbærniviðmiðum regluverksins.

Sjálfbærniupplýsingagjöf á sviði fjármálaþjónustu

Reglugerðin sem lýtur að sjálfbærniupplýsingagjöf á sviði fjármálaþjónustu skyldar fjármálafyrirtæki til þess að gera grein fyrir stefnum sínum og neikvæðum áhrifum fjárfestingarákvarðana á sjálfbærni og birta á heimasíðum sínum. Þau þurfa jafnframt að skilgreina fjármálaafurðir sínar eftir sjálfbærnieiginleikum þeirra, þar sem afurðir án sjálfbærnieiginleika flokkast sem „brúnar“, afurðir sem efla sjálfbærni flokkast „ljósgrænar“ og þær afurðir sem ganga lengst með sjálfbærri fjárfestingastefnu flokkast sem „dökkgrænar“. Mismiklar kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf eftir því hvaða sjálfbærnieiginleika fjármálaafurðir búa yfir, en jafnvel afurðir sem eru skilgreindar án sjálfbærnieiginleika, það er „brúnar“, þurfa að innleiða sjálfbærniáhættu í fjárfestingaákvarðanir og gera grein fyrir henni, meta vænt áhrif sjálfbærni á ávöxtun afurðar sem og neikvæð áhrif fjárfestinga á sjálfbærni, og tryggja í þessum efnum aðgengi fjárfesta að nauðsynlegum upplýsingum.

Reglugerð þessi spilar með fyrrnefndri flokkunarreglugerð að því leyti að til þess að fjármálafyrirtækin geti flokkað eignasöfn sín eins og reglugerðin kveður á um, þá þurfa þau staðlaðar upplýsingar frá fyrirtækjunum á bak við undirliggjandi eignir. Flokkunarreglugerðinni er ætlað að tryggja gæði og samræmi í þeirri upplýsingagjöf fyrirtækjanna.

Tilskipun um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja

Handan við hornið er innleiðing tilskipunar um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (e. Corporate Sustainability Reporting Dirvective, CSRD), en hún mun koma í stað núverandi krafna í lögum um ársreikninga um ófjárhagslega upplýsingagjöf og fyrst um sinn ná til sömu fyrirtækja og flokkunarreglugerðin. Reiknað er með að tilskipunin verði innleidd hér á landi á næstu tveimur árum. Innan ESB mun tilskipunin einnig taka til minni fyrirtækja árið 2026 og er verður það þá að líkindum innleitt aðeins síðar á Íslandi.

Tilskipuninni fylgja fleiri tugir nýrra sjálfbærnistaðla (e. European Sustainability Reporting Standards, ESRS) niður á ólíkar atvinnugreinar. Kröfur ESRS staðlanna eru mjög ítarlegar og munu fyrirtæki þurfa að útlista hvernig viðskiptalíkön þeirra og stefna samræmast sjálfbærnivegferð og loftslagsmarkmiðum stjórnvalda. Fyrirtækin munu þurfa að skila heildstæðri skýrslu stjórnar sem birt er samhliða ársreikningi, sem inniheldur umfjöllun um sjálfbærni út frá ESRS stöðlum og flokkunarreglugerðinni. Ekki liggur enn fyrir með nákvæmum hætti hvernig þetta verður útfært.

Sem liður í CSRD tilskipuninni munu fyrirtæki þurfa að greina svokallað tvíþátta mikilvægi. Annar þáttur þess er svokallað „áhrifamikilvægi“ en í því felast þau áhrif sem fyrirtækið hefur á umhverfið og samfélagið, til dæmis með kolefnisútblæstri eða úrgangslosun. Hinn mikilvægisþáttur tvíþáttagreiningarinnar er „fjárhagslegt mikilvægi“ en í því felast fjárhagsleg áhrif umhverfis og samfélags á fyrirtækið, til dæmis út frá áhættu, tækifærum og framtíðarsjóðstreymi. Dæmi um þetta gætu verið kolefnisskattar sem lagðir eru á starfsemina.

Með tilskipuninni verður tenging sjálfbærni við viðskiptalíkan og stefnu fyrirtækja gert skýrara, gagnsæi varðandi aðferðarfræði eykst og upplýsingarnar verða yfirfarnar og staðfestar af endurskoðanda, líkt og fjárhagsupplýsingar. Upplýsingagjöf fyrirtækjanna mun ná til virðiskeðjunnar í heild en ekki aðeins aðfangakeðjunnar. Á fundi SA og fleiri aðila um sjálfbærniregluverkið í síðustu viku benti Halldór Pálsson, umsjónarmaður ársreikninga hjá Skattinum, á að afar takmarkað svigrúm væri til að víkja frá ákvæðum tilskipunarunnar, en að þó væri ákvæði sem heimilaði að fresta innleiðingu á allri virðiskeðjunni í allt að þrjú ár. „Við þurfum að horfa á hvort við þurfum ekki að gera það,“ sagði hann og mátti skilja sem svo að fyrirtækin þyrftu lengri tíma til að ná utan um hana.

Með tilskipuninni eykst krafa um gagnasöfnun og framsetningu upplýsinga verulega. Halldór lýsti áhyggjum af því að þar væri hætt við að yfirsýn tapaðist, við hættum að sjá skóginn fyrir trjánum. Þetta hefur verið gagnrýnt, en endanleg útfærsla liggur ekki fyrir og eru þessi mál til umræðu hjá reikningsskilaráði Evrópu (EFRAG).

Hefji undirbúning strax

Það er ljóst að nóg verður að gera hjá ráðgjafarfyrirtækjum sem sérhæfa sig í sjálfbærniregluverkinu á komandi árum við að styðja fyrirtæki á þeirra vegferð. Gunnar Sveinn Magnússon, meðeigandi hjá Deloitte, leiðir sjálfbærniráðgjöf fyrirtækisins. Hann mælir með því að fyrirtæki dragi ekki að setja sig inn í málin.

„CSRD tilskipunin, sem verður innleidd á næsta ári eða í síðasta lagi 2025, verður þyngst af þessu öllu. Þar er ekki bara verið að flokka starfsemina eftir því hvort hún sé græn eða ekki, heldur kemur þar þessi nýi evrópski sjálfbærnistaðall, sem byggir á núverandi stöðlum líkt og GRI, TCFD og UFS viðmiðum Nasdaq og mun jafnframt leysa þá af hólmi. Þetta mun hafa áhrif á reikningsskil fyrirtækja með breytingum á lögum um ársreikninga undir núverandi grein 66d) um ófjárhagslega upplýsingagjöf,“ segir hann.

Hann bendir á að með tilskipuninni þurfi fyrirtækin að færa sjálfbærni úr því að vera einskonar jaðarstarfsemi innan fyrirtækisins yfir í að samþætta við fjárhagsuppgjörið sem þýðir að fjárhagsteymið þarf að taka málaflokkinn meira inn á borð til sín.

„Það þarf að halda miklu nákvæmara bókhald utan um helstu sjálfbærniþætti en áður og jafnframt upplýsa um fjárhagsleg áhrif af loftslagsbreytingum (og öðrum sjálfbærniþáttum) á rekstur fyrirtækja og til þess þarf að hafa greinargóð gögn og viðurkennda ferla og kerfi. Það eru þessi atriði sem maður er smeykastur um að fyrirtækin hafi ekki innviði og þekkingu í dag til að takast á við. Þannig að við erum að hvetja fyrirtæki til að byrja að huga að þessu strax, því ef fyrirtæki bíða fram á síðustu stundu þá verður þetta mikil áskorun.“

Þótt regluverkið nái enn sem komið er aðeins yfir stór fyrirtæki, bendir hann jafnframt á að lítil og meðalstór fyrirtæki þurfi einnig að fara að huga að þessum málum.

„Til þess að stórt fyrirtæki og/eða fjármálastofnun geti veitt upplýsingar um starfsemi sína byggt á allri virðiskeðjunni, þá munu þau þurfa að kalla eftir upplýsingum frá birgjum og samstarfsaðilum, þannig að jafnvel litlu fyrirtækin sem falla ekki undir regluverkið með beinum hætti, þau munu þurfa að birta upplýsingar að endingu.”