Kristinn Sigtryggsson
Kristinn Sigtryggsson
Hefjum verkið og fylgjum fast eftir. Horfumst í augu við stöðuna. Okkar bankar verði fyrirmynd nýrrar hátæknihugsunar.

Kristinn Sigtryggsson

Þetta er fjórði pistill minn af sjö sem hafa verið eða verða birtir á næstu vikum. Skilaboð allra þessara pistla eru að vegna tregðu stjórnmálamanna í heiminum sé unnið alltof hægt að þeim þáttum sem gætu komið í veg fyrir að áhrif loftslagsbreytinga valdi komandi kynslóðum stórfelldum skaða.

Fjórtán ár eru nú liðin frá því að bankakerfið á Íslandi fór á hliðina og fjöldi erlendra banka stórra og smárra fór sömu leið. Eftirlit með bönkunum hefur verið bætt töluvert en þó er hægt að gera mun betur í þeim efnum. Í umræðunni og umfangsmikilli skýrslugerð eftir þennan atburð kom meðal annars fram að langstærsti hluti (yfir 80%) eigna í efnahagsreikningum stóru erlendu bankanna væri „peningar“ sem færu í hringi í bankakerfinu, fáum þjóðfélögum ef nokkrum til gagns en sköpuðu verulegan hagnað fyrir þá sem næga fjármuni hefðu til að geta tekið þátt í leiknum. Um er að ræða stjarnfræðilegar upphæðir sem skipta um hendur á degi hverjum í flóknum fjármálagerningum. Almenningur hefur enga möguleika á að skilja hverjir það eru sem raunverulega borga brúsann en augljóslega gerir einhver það.

Þar sem svona stórar fjárhæðir eru í veltunni er erfitt að fyrirbyggja að stórar upphæðir þvottapeninga fylgi með án þess að eftir því sé tekið, svo þarna er talið að stór hluti slíkra fjármuna hafi farið og fari enn í gegnum þvottavélarnar.

Rafmyntir (crypto currencies) fara kaupum og sölum um fjármálaheiminn. Þessar myntir hafa ekkert bakland hjá ríkjum eða opinberum fjármálaeftirlitsstofnunum og má því líkja viðskiptum með þær við fjárhættuspil. Talið er að svarti markaðurinn (eiturlyf og vopn) hafi notað þessar myntir mikið til að hylja slóð sína. Það mun þó hafa minnkað eitthvað vegna þess hversu gengi þeirra er sveiflu- og tilviljanakennt. Mikilli óhreinni orku er svo varið í svokallaðan námagröft eftir bitcoin. Er nokkurt vit í þessu?

Nokkur undanfarin ár hef ég, ásamt stjórnendum og fyrrverandi stjórnendum úr alþjóðlega bankakerfinu, unnið að undirbúningi nýrra leiða til að aðstoða smáa og meðalstóra banka við að tryggja bakland sitt og styrkja ímynd sína og efla þannig hæfni til að takast á við viðskipti sem til þessa hafa verið innan stærstu bankanna. Aukið eftirlit með stóru bönkunum gerir það erfiðara fyrir svarta markaðinn að þvætta peninga í gegnum þá, sem aftur skapar hættu á því að sá markaður sæki í auknum mæli í smærri banka og auki verulega áhættu eigenda þeirra og stjórnenda. Við vonum að þessi starfsemi komist á koppinn á næstu árum og geti þá líka fljótlega farið að sinna sinni samfélagslegu ábyrgð með stuðningi við friðarsamtök sem eru í mótun og verða algerlega gagnsæ.

Þessari nýju þjónustu er ætlað að verða upphafið að nýjum ábyrgum hugsunarhætti í bankakerfinu og auka vigt minni bankanna. Starfsemin verður byggð að verulegu leyti á hátæknilausnum, m.a. til að tryggja stöðuga þróun áhættumats í síbreytilegu umhverfi sem fram undan er, skjótan aðgang að lausafé og lágmarka áhættu.

Íslensku bankarnir eru mun varkárari í dag en á árunum fyrir hrun. Þeir eru hins vegar allir af svipaðri stærð og með nokkurn veginn sama viðskiptamódel. Því hefur skapast augljós fákeppni á markaðnum sem er líkleg til að valda hærri rekstrarkostnaði og þar með óhagstæðum viðskiptakjörum fyrirtækja og almennings.

Nýjar áskoranir í áhættumati og áhættustjórnun blasa við í bankakerfinu eins og annars staðar. Aukum vægi siðfræðinnar. Bankastjórar með sterka siðferðiskennd og skýra sýn á hvernig réttlátt þjóðfélag á að starfa eru bankastjórar framtíðarinnar.

Allar atvinnugreinar þurfa að endurhugsa áhættugreiningar sínar. Hér hefur aðeins verið tæpt á fáeinum atriðum til að vekja umhugsun um hvert stefnir. Í næsta pistli mun ég fjalla um menntastofnanir.

Megi ljósið fylgja ykkur hvert sem þið viljið ganga.

Höfundurinn er endurskoðandi á eftirlaunum.

Höf.: Kristinn Sigtryggsson