Hlíðarendi Elín Rósa Magnúsdóttir úr Val sækir á Eyjakonuna Ástu Björt Júlíusdóttur á Hlíðarenda í öðrum leik liðanna í gærkvöldi.
Hlíðarendi Elín Rósa Magnúsdóttir úr Val sækir á Eyjakonuna Ástu Björt Júlíusdóttur á Hlíðarenda í öðrum leik liðanna í gærkvöldi. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur er einum leik frá því að verða Íslandsmeistari kvenna í handbolta í fyrsta skipti frá árinu 2019, eftir 25:22-sigur á ÍBV í öðrum leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valur er nú með 2:0-forystu í einvíginu og verður…

Á Hlíðarenda

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valur er einum leik frá því að verða Íslandsmeistari kvenna í handbolta í fyrsta skipti frá árinu 2019, eftir 25:22-sigur á ÍBV í öðrum leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valur er nú með 2:0-forystu í einvíginu og verður meistari með sigri í þriðja leik í Vestmannaeyjum á laugardaginn kemur.

Leiðir skildi í fyrri hálfleik

Staðan var 4:4 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, en þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan 8:5, Val í vil. Tókst ÍBV ekki að jafna eftir það. Eyjakonur fengu nokkur tækifæri til að minnka muninn í tvö mörk í seinni hálfleik. Það gekk hins vegar ekki eftir og Valur sigldi verðskulduðum sigri í höfn.

Meiri breidd hjá Val

Fleiri leikmenn Vals spiluðu vel í gærkvöldi og Valsliðið nýtti breiddina vel. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var allt í öllu í sóknarleik ÍBV og skoraði hún ellefu mörk, jafnmörg og allir samherjar hennar til samans. Marta Wawrzynkowska varði 17 skot í markinu og ásamt Hönnu var hún stærsta ástæða þess að ÍBV tapaði ekki með mun meiri mun.

ÍBV verður að fá meira frá fleiri leikmönnum til að eiga einhvern möguleika á að snúa einvíginu sér í vil. Sunna Jónsdóttir, Elísa Elíasdóttir og Ásta Björt Júlíusdóttir geta allar betur.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði níu fyrir Val, þar af sex úr vítum, á meðan liðsfélagar hennar skiptu mörkunum vel á milli sín og margir leikmenn lögðu sitt af mörkum. Mariam Eradze átti fína spretti og Elín Rósa Magnúsdóttir bauð upp á skemmtilegustu gabbhreyfingar sem ofanritaður hefur séð lengi. Sara Sif Helgadóttir fór á kostum í markinu og varði 18 skot.

Lykilmenn frá hjá báðum liðum

Bæði lið eru að leika án lykilmanna, því Birna Berg Haraldsdóttir er frá hjá ÍBV og Thea Imani Sturludóttir frá hjá Val. Valskonur ráða betur við að vera án eins lykilmanns og liðsmenn ÍBV virkuðu stundum orkulitlir og þreyttir í gær.

Eyjakonur eru nú með bakið upp við vegg og verða að vinna á heimavelli. Ef einhverjir stuðningsmenn geta gefið liði sínu aukakraft, eru það stuðningsmenn ÍBV í Vestmannaeyjum. Valskonur eru í góðri stöðu, en einvígið er langt frá því að vera búið. Eyjakonur hafa lítinn áhuga á að sjá Valsliðið verða Íslandsmeistari á sínum heimavelli.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson