Karphúsið Viðræðurnar fóru fram í húsnæði ríkissáttasemjara.
Karphúsið Viðræðurnar fóru fram í húsnæði ríkissáttasemjara. — Morgunblaðið/Golli
Átta stéttarfélög innan BHM hafa undirritað nýja kjarasamninga við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS). Um skammtímasamninga er að ræða sem gilda frá 1. apríl sl. til 31. mars á næsta ári

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Átta stéttarfélög innan BHM hafa undirritað nýja kjarasamninga við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS). Um skammtímasamninga er að ræða sem gilda frá 1. apríl sl. til 31. mars á næsta ári.

„Ég er ánægð með að samningar hafa náðst við sveitarfélögin. Þessi samningur er í anda þeirra sem önnur félög hafa nú þegar skrifað undir en þar að auki mættu sveitarfélögin kröfu okkar um jöfnun launa félagsfólks á afmörkuðu launabili,“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, formaður Fræðagarðs, sem er eitt þessara stéttarfélaga og hið fjölmennasta innan BHM.

Hafa staðið þétt saman

„Vissulega er þó hægt að líta á þennan samning sem frestunarsamning, en honum er ætlað að viðhalda kaupmætti félagsfólks Fræðagarðs í mikilli verðbólgu. Við framlengjum umræðu um stærri og víðtækari kjarabætur til næstu kjaralotu. Við stéttarfélög innan BHM höfum staðið þétt saman í viðræðum við sveitarfélögin sem og aðra viðsemjendur og þess háttar samstaða er ómetanleg í kjarabaráttunni,“ segir Brynhildur ennfremur.

Félögin sem sömdu við sveitarfélögin eru Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félagsráðgjafafélag Íslands, Fræðagarður, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga og Þroskaþjálfafélag Íslands. Kynning og atkvæðagreiðslur meðal félagsmanna eru þegar hafnar í félögunum. Rennur frestur til að greiða atkvæði út á hádegi næstkomandi föstudag.

82% í FIT og 100% í Byggiðn

Sveitarfélögin hafa nýlega gengið frá kjarasamningum við fleiri stéttarfélög. Í seinustu viku var samningur SNS við Félag iðn- og tæknigreina (FIT) samþykktur í stéttarfélaginu með um 82% atkvæða og samningur við Byggiðn var samþykktur með 100% greiddra atkvæða.

Höf.: Ómar Friðriksson