Hildigunnur Gunnarsdóttir
Hildigunnur Gunnarsdóttir
Skólamenning gegnir veigamiklu hlutverki þegar innleiða á breytingar í skólastarfi og afla þarf samþykkis innan skólanna.

Hildigunnur Gunnarsdóttir

Mennta- og barnamálaráðherra kynnti síðastliðið haust áform um að leggja fram ný heildarlög um skólaþjónustu. Hugtakið skólaþjónusta og markmiðin með henni eru ef til vill ekki alveg nógu skýr í huga fólks og mismunandi skilningur lagður í það. Við getum hugsað okkur að það feli í sér stuðning til velfarnaðar við skólann, kennara, nemendur og foreldra. Þá sem eru í aðalhlutverki í skólasamfélaginu.

Í áformum að heildarlögum um skólaþjónustu sem mennta- og barnamálaráðherra hefur kynnt er gert ráð fyrir þrepaskiptum stuðningi. Fyrsta þrepið, þar sem við viljum hafa sem flesta nemendur, felur í sér að veita kjöraðstæður hvað varðar almenna kennslu, forvarnir og skólabrag. Að gildi og menning skólans efli nemendur og veiti þeim vellíðan. Skólinn hvílir á þessum grunni, þar eru ræturnar. Á grunnþrepinu erum við einnig að horfa á menntun kennara, skólaþróun og námskrá. Á öðru þrepi er snemmtækur stuðningur sem getur til að mynda falist í hagræðingu á umhverfi nemandans og kjörið að stuðningsteymi innan skólans vinni saman. Kvennaskólinn í Reykjavík hefur undanfarin ár þróað stuðningsteymi skólans. Þar vinna saman náms- og starfsráðgjafar, sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur, námstjóri og kennarar að málefnum er varða nemendur sem þurfa sérstakan stuðning sem er jafnvel margþættur. Við skiptum með okkur verkum eftir faglegri þekkingu og reynslu hvers og eins. Getum komið að máli nemanda frá ólíkum hliðum þannig að stuðningurinn verði heildstæðari. Hvað snemmtækan stuðning við kennara og skóla varðar má hugsa sér einhvers konar faglega miðstöð þar sem hægt er að leita uppeldis- og kennslufræðilegrar ráðgjafar. Ef menning skólans er sterk í tengslum við menntun kennara og skólaþróun má frekar vænta að þessi þáttur ráðist á fyrsta þrepinu. Þriðja og síðasta þrepið gerir ráð fyrir miklum stuðningi við nemendur og að hann komi yfirleitt frá fagaðilum með mikla sérþekkingu utan skólans.

Tengsl farsældar við breytingar á skólastarfi

Ýmsir hagaðilar koma við sögu þegar til stendur að breyta einhverju í skólastarfi og til að breytingar gangi vel fyrir sig er mikilvægt að sem mest sátt ríki um þær og hagaðilar fái tækifæri til að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd. Margar rannsóknir á skólastarfi sýna að mikilvægt er að afla samþykkis innan skóla þegar breyta á einhverju og skólinn verður að vera í góðum tengslum við og fá stuðning frá skólasamfélaginu. Ýmsar hindranir geta verið í veginum fyrir breytingum á skólastarfi, til dæmis þær sem eru byggðar á menningu, gildum, völdum, rökum um hagkvæmni og sálfræðilegum þáttum. Stórvægilegar breytingar á skólastarfi geta einnig falið í sér missi, ógnað hæfni, valdið ruglingi og ágreiningi. Ef breytingar á skólastarfi eiga að vara til langs tíma og hafa einhverja þýðingu verða skólarnir sjálfir að bera ábyrgð á framkvæmd breytinganna.

Nýlegt útspil um sameiningu nokkurra framhaldsskóla er í engu samræmi við mikilvægi jákvæðrar og sterkrar menningar í skólastarfi og því ekki til þess fallið að veita brautargengi þeim hugmyndum og markmiðum sem áform um heildarlög um skólaþjónustu byggjast á. Leggja á niður framhaldsskóla sem byggja á langri sögu, sterkum hefðum og jákvæðum gildum og sem hafa umhyggju fyrir nemendum í heiðri. Leiðarljósið í uppbyggingu skólaþjónustunnar getur því ekki verið skólamenningin eða skólabragurinn sem skiptir svo miklu máli á fyrsta þrepinu. Það getur tekið langan tíma að þróa sameiginleg gildi og byggja upp skólamenningu í nýjum skóla og því hafa þeir skólar ekki neðsta þrepið í skólaþjónustunni til að reiða sig á í upphafi. Til að innleiðing heildarlaga um skólaþjónustu geti orðið að veruleika í skólum verður jákvæð og sterk menning, góður skólabragur, að vera fyrir hendi í hverjum skóla.

Höfundur er menntunarfræðingur og náms- og starfsráðgjafi í Kvennaskólanum í Reykjavík.

Höf.: Hildigunnur Gunnarsdóttir