Heimssýn hefur skilað inn ágætri umsögn um varasamt stjórnarfrumvarp

Heimssýn hefur birt á vef sínum á blog.is umsögn um lagafrumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Í umsögninni er bent á að löggjafarvald sé í höndum þjóðkjörinna þingmanna og forseta en þrátt fyrir það hafi „sá háttur verið á um nokkurt skeið að lög sem samin hafa verið af erlendu ríkjasambandi hafa verið gerð að lögum á Íslandi, að heita má umræðulaust. Er þá iðulega horft framhjá því hvort umrædd lög henti á Íslandi eða hvaða kostnað þau hafi í för með sér. Þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi samkvæmt samningi fulla heimild til að hafna því að setja lög með þessum hætti virðist svo vera að aðilar innan stjórnkerfis landsins og sumir stjórnmálamenn telji að slík höfnun kalli á svo harðar aðgerðir af hálfu hins erlenda ríkjasambands að heimildin til að hafna löggjöf sé ekki til staðar í raun. Þetta er einkennileg staða og vandséð er að þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrá. Vinnubrögðin sem hér er lýst eru hættuleg hagsmunum Íslendinga og ganga gegn hugmyndum þorra fólks um lýðræði.“

Þá bendir Heimssýn á að Evrópusambandið hafi „teygt arma sína inn á sífellt fleiri svið samfélagsins með ýmsum hætti. Má þar nefna löggjöf um orkumál, dóm um innflutning á ófrosnu kjöti og hægfara eyðingu á hinu tveggja stoða kerfi EFTA og Evrópusambandsins.“

Enn fremur segir Heimssýn að með frumvarpinu sé lagt til skref í „átt að tilfærslu valds frá lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum á Íslandi til Evrópusambandsins sem erfitt er við að una.“

Loks segir í umsögninni að „best sé að leggja fyrrgreinda bókun 35 til hliðar og hefjast þegar í stað handa við að koma samskiptum Íslands við þær þjóðir sem eftir eru í Evrópusambandinu í þann farveg að hagsmunir Íslendinga séu sem best tryggðir, án þess að fullveldi landsins sé skert eða fargað.“

Á þetta ættu flestir að geta fallist.