Ævintýri Leikarar úr Perlunni á lokaæfingu á uppfærslu sinni á verkinu um Mjallhvíti og dvergana sjö.
Ævintýri Leikarar úr Perlunni á lokaæfingu á uppfærslu sinni á verkinu um Mjallhvíti og dvergana sjö. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Perluleikararnir hafa einstakan stíl við að segja sögur á sviði. Leikhópurinn er mikilvægt blóm í menningarflóru Íslendinga sem þarf að hafa svigrúm til þess að dafna, því starfið allt gefur bæði þátttakendum og áhorfendum afar mikið,” segir Bergljót Arnalds

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Perluleikararnir hafa einstakan stíl við að segja sögur á sviði. Leikhópurinn er mikilvægt blóm í menningarflóru Íslendinga sem þarf að hafa svigrúm til þess að dafna, því starfið allt gefur bæði þátttakendum og áhorfendum afar mikið,” segir Bergljót Arnalds.

Halda merki á lofti

Því er fagnað um þessar mundir að Leikhópurinn Perlan er 40 ára. Alls eru tíu manns í hópnum, fólk með fötlun, s.s. downs-heilkenni. Í leiklistinni nær fólkið að blómstra og gera góða hluti, enda hefur sumt af því verið lengi í starfinu. Á meðal þeirra er Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson sem hefur verið þátttakandi frá byrjun og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í uppfærslum leikhússins nú. Móðir Bergljótar, Sigríður Eyþórsdóttir, leiddi starf Perlunnar frá stofnun árið 1983 fram til dánardægurs árið 2016.

„Á margan hátt var allt sem tengist Perlunni og fólkinu þar hugsjónastarf móður minnar. Mér fannst mikilvægt að halda merkinu á lofti og hljóp í hennar skarð. Slíkt átti í fyrstu aðeins að vera til skemmri tíma, því þegar þarna var komið sögu fyrir sjö árum var jafnvel til umræðu að starf Perlunnar legðist af. Til þess mátti ég ekki hugsa, hélt því áfram og hér er ég enn,“ segir Bergljót, sem er menntuð leikkona auk þess að hafa sent frá sér fjölda bóka.

Leikhópurinn Perlan heldur upp á afmæli sitt með frumsýningu á tveimur nýjum verkum á stóra sviði Borgarleikhússins á morgun, uppstigningardag, kl. 14. Fyrra verkið er Mjallhvít og dvergarnir sjö; byggt á hinu klassíska Grimmsævintýri. Fyrir þessa uppfærslu tók Bergljót handritið til kostanna og uppfærði ýmis efnisatriði til nútímans og að hæfi leikaranna. Þá er í uppfærslunum nú samstarf við Listaháskóla Íslands og Jazzballettskóla Báru. Því mun margt í sýningunni koma skemmtilega á óvart, gleðja og hafa áhrif, meðal annars tónlistin sem Máni Svavarsson semur sérstaklega fyrir sýninguna.

Eflir og styrkir

„Uppfærslan á Mjallhvíti er 40 mínútur og lengsta verk sem Perlan hefur sett upp til þessa. Við setjum mikinn metnað í málið. Eftir hlé frumsýnum við leikverk byggt á ljóðinu Slysaskot í Palestínu sem fjallar um sorg sem fylgir stríðsátökum. Við töldum að þetta verk ætti vel við nú á átakatímum og ljóðið eftir Kristján frá Djúpalæk sem er vel þekkt,“ segir Bergljót um sýningu dagsins, þangað sem Guðni Th. forseti og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, hafa boðað komu sína.

„Vissulega getur starfið með Perlunni verið krefjandi rétt eins og það er gefandi og þakklátt. Ég finn líka hvað starfið gefur leikurunum mikið, eflir þá og styrkir á alla lund og þegar svo er er til mikils unnið,“ segir Bergljót.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson