Liverpool Hin sænska Loreen sigri hrósandi.
Liverpool Hin sænska Loreen sigri hrósandi. — AFP/Oli Scarff
Í blaðinu í gær voru bæði ljósvakapistill Kolbrúnar Bergþórsdóttur og leiðarinn helgaðir Evrósjón. Í ljósi þess að leiðtogafundur Evrópuráðsins er hafinn er sjálfsagt að halda áfram umfjöllun um þetta sameingarafl heimsálfunnar

Andrés Magnússon

Í blaðinu í gær voru bæði ljósvakapistill Kolbrúnar Bergþórsdóttur og leiðarinn helgaðir Evrósjón. Í ljósi þess að leiðtogafundur Evrópuráðsins er hafinn er sjálfsagt að halda áfram umfjöllun um þetta sameingarafl heimsálfunnar.

Það verður þó að lýsa vonbrigðum með hnignun menningarlífs þjóðarinnar. Á leiðtogafundinum 1986 dugði Stuðmönnum (Strax) vika til þess að gefa út lag og myndband í tilefni fundarins.

En aftur að Evrósjón: Þetta var prýðileg skrautsýning þarna í Liverpool, svona að tilliti teknu til þess að þetta er tónlistarhátíð fyrir ómúsíkalskt fólk. Og Gísli Marteinn, Siggi Gunnars og öll hin góð fyrir sinn hatt. Taumlaus gleði, glamúr og glimmer.

En þar vantar hina engilsaxnesku hefð, sem felst í að hafa kynna sem tæta dagskrána í sig með kaldhæðni og yfirdrepsskap. Úr því verður að bæta. Ekki með því að láta Gísla Martein & co. róa, heldur með því að nota báðar sjónvarpsrásir ríkisvaldsins undir Evrósjón. Sama myndefni á báðum, en á meðan glimmergengið missir sig í hrifningu á RÚV1, þá sjá Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr um að segja okkur hinn hryllilega sannleika á RÚV2. – Allir vinna … nema kannski íslenski keppandinn.

Höf.: Andrés Magnússon