Umbúðirnar frá Matiere Premiere eru stílhreinar og sígildar. Það sama má segja um ilmina sem eru margslungnir án þess að vera of flóknir.
Umbúðirnar frá Matiere Premiere eru stílhreinar og sígildar. Það sama má segja um ilmina sem eru margslungnir án þess að vera of flóknir. — Ljósmynd/Ásgeir Ingvarsson
Í sumum heimshlutum er saffran táknmynd hins ljúfa lífs. Þetta fágaða og dýra krydd virðist gera allan mat ljúffengari og þykir líka vera allra meina bót en fyrr á öldum var plantan notuð til að lita klæði heldriborgara og styrjaldir háðar til að tryggja aðgang að kryddinu

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Í sumum heimshlutum er saffran táknmynd hins ljúfa lífs. Þetta fágaða og dýra krydd virðist gera allan mat ljúffengari og þykir líka vera allra meina bót en fyrr á öldum var plantan notuð til að lita klæði heldriborgara og styrjaldir háðar til að tryggja aðgang að kryddinu. Enn þann dag í dag er sú hefð sterk í sumum löndunum við Miðjarðarhaf að ef góðan gest ber að garði sé honum mest virðing sýnd með því að hella upp á saffran-te.

Lífskúnstnerar sem vilja vera með á nótunum ættu endilega að kynna sér þá saffran-ilmi sem eru í boði, og helst bæta einni flösku í safnið. Er eðlilegt að hefja leitina hjá franska ilmhúsinu Matiere Premiere sem framleiðir sennilega það besta saffran-ilmvatn sem finna má.

Um er að ræða ungt fyrirtæki stofnað af frumkvöðlinum Aurélien Guichard og aðeins er hægt að finna ilmvatnið til sölu á völdum stöðum. Ilmirnir sem Matiere Premiere blandar eru í hæsta gæðaflokki – í senn einfaldir og margslungnir – og sumir þeirra hreint ómótstæðilegir. Eru gæðin slík að ekki ætti að koma á óvart ef Matiere Premiere verður orðið mjög stórt nafn í ilmheiminum að áratug liðnum, en til marks um metnaðinn leggur félagið sig fram við að rækta mikið af eigin ilmjurtum, sem blanda má við besta hráefni sem finna má hjá framleiðendum um allan heim.

Í senn afgerandi og fjölhæfur

Nýjasta stjarnan hjá Matiere Premiere er saffran-ilmurinn Crystal Saffron. Nafnið lýsir ilminum vel því hann er einkar ferskur og léttur en samt með mjög greinilega kjölfestu. Í blönduna er notuð grísk saffranolía sem gefur seyðandi og skýran ilm sem hvorki felur sig né reynir að trana sér fram. Í forgrunni er safaríkur moskus, saffranið í miðjunni blandað tónum sem minna ögn á mintu, og í undirlaginu vægur keimur af reykelsi í bland við nokkuð sterkan ambroxan.

Ætti anganin að minna sumpart á metsöluilminn Baccarat Rouge frá Francis Kurkdjian en Crystal Saffron tekst að vera virðulegri og fjölhæfari. Baccarat Rouge er mjög „graður“ ilmur sem hentar t.d. ekki vel fyrir skrifstofuna, en Crystal Saffron má nota við öll tækifæri og á öllum tímum ársins – þó frekar yfir kaldari mánuðina. Er rétt að vara lesendur við að úða ekki of miklu á sig því ilmurinn er kröftugur og langlífur.

Af öðrum ilmum frá Matiere Premiere má benda sérstaklega á Falcon Leather sem ætti að hitta í mark hjá þeim sem eru hrifnir af kröftugum leður- og kryddtónum. Fyrir þá sem vilja eitthvað léttara má mæla með Radical Rose og Neroli Oranger sem hallast meira í átt að því kvenlega.

Áhugasamir geta pantað sér flösku eða litla öskju af sýnishornum á vefsíðu Matiere Premiere (www.matiere-premiere.com), eða fengið að prófa ilmina í verslunum á borð við Crime Passionel í Kaupmannahöfn, í flestum betri stórverslunum Parísar eða hjá Harrods í Lundúnum.